136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:44]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir mjög góða ræðu og málefnalega. Það sem ég velti fyrir mér varðandi mál hans voru tillögur hans eða hugmyndir um að Framsóknarflokkurinn hefði komið með heildstæðar lausnir á vandanum.

Ég hef fylgst með þeirri málefnavinnu sem hefur verið unnin af hálfu Framsóknarflokksins og er hún allra góðra gjalda verð og gefur vísbendingu um að hin nýja forusta Framsóknarflokksins vill gera vel og ekki skal ég efa það. Mér hefur þó fundist á það skorta að þær góðu hugmyndir sem þarna hafa komið fram hafi fundið leið inn í þingsali. Ég velti fyrir mér og ég satt að segja get ekki séð að það hafi komið heildstæðar tillögur, t.d. með hvaða hætti eigi að skipa bankamálum á Íslandi. Eiga að vera þrír ríkisbankar á Íslandi eða eigum við að fara einhverjar aðrar leiðir? Hvað með stýrivextina, gengur það að hafa stýrivexti með þeim hætti að þeir séu í tveggja stafa tölu þegar verið er að lækka stýrivexti jafnvel niður undir núllið alls staðar í löndunum í kringum okkur? Þýðir það ekki að við erum með lánakerfi sem gerir það að verkum að samkeppnisaðstaða íslenskra atvinnuvega verður alltaf þannig að hún gengur ekki upp? Einhverjar bráðaaðgerðir duga ekki, við verðum að hugsa til lengri tíma.

Það hefur verið talað um að skrifa niður skuldir og það er líka spurningin um hvort við breytum lánum sem annars verða undirmálslán í góð lán, og allt er þetta gott. En spurningin að síðustu er þessi: Gengur að lagfæra þessa hluti nema við horfum til lengri tíma og horfum til þess að tekinn verði upp gjaldmiðill sem gengur í öllum viðskiptum og verðtrygging lána verði afnumin?