136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:46]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Magnússon hefði átt að kynna sér betur þær tillögur sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram í efnahagsmálum. Í þeim var nefnilega komið inn á að nauðsynlegt er að ráðast nú þegar í lækkun á stýrivöxtum. Greinargerð fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var unnin af hálfu flokksins og sérfræðinganna með rökstuðningi fyrir því af hverju ætti að hefja vaxtalækkunarferlið nú þegar. Formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur kynnt röksemdafærslu okkar og efnahagstillögur fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en mér er sagt að trúnaður sé yfir slíkum viðræðum. Þannig að ég ætla ekki að tjá mig neitt frekar um það. En formaður Framsóknarflokksins hefur nú þegar kynnt efnahagstillögur flokksins og farið yfir rökstuðning okkar um af hverju við viljum hefja stýrivaxtalækkun strax.

Ljóst er að í 18% stýrivöxtum brennur eigið fé fyrirtækja upp og yfirdráttarlán heimilanna eru himinhá í 18% stýrivöxtum. Það er alvarlegt mál og að mínu viti eru engin rök fyrir því að hafa þessa háu stýrivexti á sama tíma og gjaldeyrishöft. Það er algjör rökleysa, algjör vitleysa, vil ég segja.

Hv. þingmaður minntist líka á bankamál. Tekið er á þeim í efnahagstillögum Framsóknarflokksins þar sem við teljum að erlendir kröfuhafar eigi að koma að eignaraðild bankanna. Það er mjög mikilvægt til að opna á lánalínur erlendis. Þannig að á því er tekið. Við nefnum líka að æskilegt væri að sameina jafnvel tvo af þremur ríkisbönkunum og helst hefði ég viljað sjá alla vega einn ríkisbankann fara fljótlega í einkaeign. (Forseti hringir.) En það er aftur á móti seinni tíma mál. En það sem er (Forseti hringir.) kveðið á um í þessum efnahagstillögum eru bæði vandamál í bráð (Forseti hringir.) og lengd.