136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:49]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vill nú þannig til, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, að ég hef lesið þessa tillögu Framsóknarflokksins mjög ítarlega (BJJ: Já!) þannig að ég geri mér grein fyrir því hvað sagt er um bankamál og stýrivexti. Ég var að vekja athygli á þessu og hversu mikil þörf væri á því að gripið væri til þeirra aðgerða, ekki síst vegna þess að hér starfar ríkisstjórn í boði Framsóknarflokksins. Þess vegna þótti mér eðlilegt að hnykkja á því að Framsóknarflokkurinn fylgdi tillögum sínum eftir með því að koma þeim í framkvæmd, því hann hefur kannski betri möguleika til þess en nokkur annar eins og málin standa í dag. Þannig að ég skora á hv. þm. Birki Jón Jónsson að sýna að það verði að fara frá orðum til athafna.

Það sem skiptir að mínu viti höfuðmáli er að við hverfum frá þessari vitlausu verðtryggingu og gjaldmiðli sem gengur ekki í öllum viðskiptum. Það er forsenda þess að við byggjum upp nýtt Ísland til frambúðar.