136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru mörg atriði í ræðu hæstv. forsætisráðherra sem kalla á andsvör en ég verð að staldra við nokkuð, kem inn á annað í ræðu minni sem flutt verður síðar við þessa umræðu.

Í fyrsta lagi vegna orðaskipta sem hér hafa farið fram og vegna orða í ræðu hæstv. forsætisráðherra þá er rétt að ítreka það sem áður hefur komið fram að þó að ákvæði um auðlindir og ákvæði um breytingar á stjórnarskrá væru rædd verulega í stjórnarskrárnefnd á sínum tíma þá er ekki svo að auðlindaákvæðið hafi verið afgreitt með neinum hætti eða komist að niðurstöðu, alls ekki. Þeir sem skoða skýrslu stjórnarskrárnefndar sjá það skýrt að það mál var óafgreitt af hálfu nefndarinnar og um það voru skiptar skoðanir hvernig frá því ætti að ganga. Það er rétt að þetta komi fram.

Hitt er svo annað mál að það var samkomulag um tiltekna lausn varðandi ákvæði til að breyta stjórnarskrá. En það er ekki það ákvæði sem hæstv. forsætisráðherra eða meðflutningsmenn hennar leggja fram fyrir þingið nú heldur aðeins lítill bútur af þeirri tillögu. Tillagan í heild var sú tillaga sem varð niðurstaða stjórnarskrárnefndar 2007. Þar var gert ráð fyrir nokkrum mismunandi þáttum, að stjórnarskrárbreytingar þyrftu að fara í gegnum fjórar umræður í þinginu með löngum tíma á milli, þremur vikum á milli umræðna sem er ákveðin varfærnisregla til að tryggja að ekki sé verið að keyra stjórnarskrárbreytingar í gegn á skömmum tíma. Það var líka stillt upp tveimur möguleikum varðandi samspil afgreiðslu á þingi og þjóðaratkvæðagreiðslu en þarna er bara tekin bútur úr tillögunni þannig að það sé skýrt að sú tillaga sem liggur fyrir er ekki sú tillaga sem stjórnarskrárnefnd kom sér saman um 2007.

Síðan er líka rétt að nefna að fjöldamörg önnur atriði voru rædd í stjórnarskrárnefndinni og ágæt samstaða um sum þeirra. Ríkisstjórnin kýs hins vegar að draga einungis örfá atriði fram. Það er ákvörðun hennar að gera það og um það er ekki samkomulag.