136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

innheimtuaðgerðir vegna afnotagjalda RÚV.

[15:52]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um innheimtuaðferðir Ríkisútvarpsins. Í síðustu viku var í auglýsingatíma útvarpsins greint frá því hvert fyrirkomulag yrði á innheimtu afnotagjalda. Þar lýsti Ríkisútvarpið því yfir að menn hefðu ákveðinn tíma til að gera upp afnotagjöld fyrir árið 2008 en jafnframt kom fram að fyrir ákveðna dagsetningu hótaði Ríkisútvarpið mjög hörðum innheimtuaðgerðum og ætlaði að senda allar kröfur til lögfræðinga.

Efnislega kom sem sagt fram sú ætlun RÚV að allar ógreiddar kröfur yrðu innheimtar hjá lögfræðingum, með viðeigandi ráðstöfunum sem við þekkjum hverjar eru, hafi menn ekki gert upp skuldir sínar. Ástæðan fyrir því að ég spyr hæstv. menntamálaráðherra um þetta er auðvitað sú að stjórnvöld hafa lýst því yfir að það eigi að milda innheimtuaðgerðir. Því hefur verið beint til ríkisstofnana að fara varlega í innheimtuaðgerðir. Nú vitum við að afnotagjöld Ríkisútvarpsins eru einmitt af þeim toga að slíkar kröfur eru oft þær fyrstu sem fólk frestar að borga og ef um er að ræða kröfur sem urðu til síðla árs 2008 kemur kannski ekki beint á óvart að um einhver vanskil sé þar að ræða.

Mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort henni hafi verið kunnugt um þessar fyrirætlanir Ríkisútvarpsins, hvort hún hyggist afla sér einhverra upplýsinga um hvort þetta sé með þessum hætti og hvort þetta sé ætlunin þar. Enn fremur langaði mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort henni finnist þetta vera í samræmi við þær yfirlýsingar sem ríkisstjórnin hefur gefið á sviði innheimtumála núna undanfarnar vikur. Ekki er hægt að sjá betur en svo að þau mál, sem þó eru komin inn í þingið, eigi að vera einmitt þess eðlis að hjálpa fólki í vandræðum. Mig langar að vita hvernig þetta rímar við það.