136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

5. fsp.

[15:59]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að það voru talsverð vonbrigði að Straumur skyldi fara í þrot í morgun, en því miður voru aðstæður ekki betri en svo að þetta varð niðurstaðan.

Varðandi skuldir eða skuldbindingar hins opinbera vegna þessa er því til að svara að sem betur fer stefnir ekki í að þetta hafi nein umtalsverð áhrif á fjárhag hins opinbera þótt auðvitað hafi það einhver áhrif á fjárhag hins opinbera þegar fyrirtæki sem er umsvifamikið í rekstri fer á hliðina eða fer í þrot. Bankinn starfaði ekki með neinni sérstakri ábyrgð ríkisins annarri en þeirri sem nær til innstæðna. Endanlegt mat á þeim innstæðum liggur ekki fyrir en það virðist vera eitthvað nálægt 60 milljörðum króna sem falla undir innstæðutryggingar íslenska ríkisins. Á þessari stundu er ekkert sem bendir til annars en að bankinn eigi eignir á móti þannig að það er ekkert sérstakt útlit fyrir að þetta falli á ríkið. Auðvitað hljótum við að vona að það gangi eftir.

Bankinn er núna kominn í umsjá skilanefndar og hún tekur allar ákvarðanir um rekstur og ráðstöfun eigna næstu daga. Síðan geri ég ráð fyrir því að frumvarp um slit fjármálafyrirtækja nái fram að ganga hér á þingi og þá mun það marka umgjörðina um það hvernig farið verður með bankann. Ég á ekki von á að þessum banka verði haldið gangandi í sama skilningi og nýir bankar voru (Forseti hringir.) reistir á grundvelli bankanna þriggja sem hrundu í haust (Forseti hringir.) þannig að ég geri ráð fyrir að það verði mun umsvifaminni rekstur sem tengist þessu þrotabúi en í þeim þrem fyrirtækjum.