136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[21:14]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega einfaldast að svara þessari spurningu hv. þm. Birgis Ármannssonar með því að segja: Þegar stórt er spurt verður fátt um svör. Það liggur alveg fyrir að það er gjörsamlega útilokað að átta sig til fullnustu á því hvaða þýðingu það muni hafa á lífeyrissjóðakerfið ef 100–120 milljarðar hverfa út úr því. En það er alveg ljóst að það mun hafa verulega fjárhagslega þýðingu þegar um slíkt er að ræða.

En því má hins vegar ekki gleyma að samkvæmt frumvarpinu er í raun verið að færa peningana að mestu leyti úr hægri vasanum í vinstri vasann. Þeir fara jafnvel ekki út úr þeirri fjármálastofnun sem þeir eru í.

Það sem vinnst í þessu er hins vegar það að einstaklingarnir borga ekki dráttarvexti eða innheimtukostnað vegna vanskila af því þeir fá hugsanlega að ráðstafa fjármunum sínum með þessum hætti. Það er það sem er svo mikilvægt í málinu, að einstaklingarnir hafi frjálsa ráðstöfun fjármuna sinna. Það finnst mér vera höfuðatriðið.