136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[21:17]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Birni Bjarnasyni, því kerfinu, sem við erum að tala um, var á sínum tíma komið á fyrir samkomulag Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambandsins eins og það hét þá. Á sínum tíma, í lok kjaradeilna, sendu aðilar þau tilmæli til þáverandi ríkisstjórnar að allir borgarar þessa lands skyldu greiða ákveðinn hluta af launatekjum sínum. Ég þekki það sjálfur vegna þess að ég var og hef lengst af verið sjálfstæður atvinnurekandi með mitt litla fyrirtæki og lenti í því að vegna þess að ASÍ og Vinnuveitendasambandið komust að þessari niðurstöðu var ég þvingaður í þennan lögbundna sparnað, eins og aðrir sem eins var ástatt fyrir.

Hvað sem öðru líður og hvort sem okkur finnst kerfið gott eða slæmt er það ekki mergur þess máls sem ég var að tala um, heldur það að hér er um þvingaðan sparnað að ræða, allur sparnaður sem ég sem einstaklingur hef sparað, sem maður gerir ekki af fúsum og frjálsum vilja, er þvingaður sparnaður. Það er sú skilgreining sem ég nota í því sambandi.

Þegar eitthvert fólk úti í bæ tekur ákvörðun fyrir mína hönd um að ég skuli leggja pening inn á banka þá er það að þvinga mig til að gera það. Ég geri það ekki vegna þess að ég telji ástæðu til þess eða af fúsum og frjálsum vilja. Ég get hugsanlega samþykkt eftir á að það hafi verið skynsamleg ráðstöfun af þessum aðilum úti í bæ að taka fram fyrir hendurnar á mér. Hins vegar er það þungamiðjan og það sem ég var að tala um þegar ég svaraði hv. þm. Birgi Ármannssyni áðan að mér finnst að við eigum að veita rýmri heimildir fyrir einstaklingana til að ráðstafa sjálfir þessum sparnaði, þess vegna með ákveðnum skilgreindum hætti, en ekki að þetta sé (Forseti hringir.) bundið á einhvern klafa einhverra sérstakra stofnana.