136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[21:22]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki tekið undir með hv. þm. Jóni Magnússyni hvað það varðar að umrætt kerfi sé þvingað. Ég held þvert á móti að þetta kerfi okkar sé mjög merkilegt kerfi. Ég held að sú ákvörðun sem var tekin og tilurð þessa kerfis í þeim tvíhliða samningum sem urðu til hafi í raun verið mikið heillaspor fyrir okkur Íslendinga vegna þess að þarna hafa myndast miklar eignir. Og ég trúi því og treysti að þær muni líka skipta verulegu máli í þeirri endurreisn, ef svo má segja, sem fram undan er þar sem menn gera sér miklar vonir um að þeir fjármunir sem munu verða í lífeyrissjóðakerfinu muni nýtast í atvinnuskapandi verkefni með einhverjum hætti í þeim fyrirtækjum sem vonandi munu koma upp úr þessu.

Hins vegar get ég ekki ímyndað mér að hv. þm. Jón Magnússon sé ánægður með allar þær hugmyndir sem ríkisstjórnin hefur á prjónunum um ríkisforsjárhyggju þar sem menn keppast við að leggja til að fyrirtækið fari aftur á ríkisjötuna þar sem stofna á feita sjóði og taka verkefnið aftur til ríkisins. Mér finnst ríkisstjórnin tala menn eins og Íslendingar geti ekki lengur rekið fyrirtæki á einkamarkaði, heldur sé betra að þetta sé allt á vettvangi ríkisins. (Gripið fram í.)

Mig langar að spyrja hv. þingmann í tilefni af ræðu hans hvort hann sé á þeirri skoðun að það þurfi að opna þetta lífeyriskerfi. Er hann virkilega á þeirri skoðun að við þurfum að breyta því að menn greiði til lífeyrissjóðakerfisins? Þá er ég að tala um almenna kerfið. Vill hann sjá breytingu þar á, vill hann hafa þetta meira valkvætt og hvaða áhyggjur hefur hann af slíkum ákvörðunum á kerfið í heild sinni?