136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[21:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér spannst ágætisumræða í tilefni af frumvarpinu. Hv. þm. Jón Magnússon velti ýmsum grundvallarspurningum fyrir sér sem tengjast málinu og í raun væri mjög hollt að við ræddum það hér í þingsal. Þetta mál snýst um það hvernig við högum þeim málum sem snúa að lífeyrissparnaði landsmanna. Það er stutt á milli þess að menn séu annars vegar með einhvers konar þvingun og forræðishyggju en hins vegar með skynsamlegt kerfi sem almenn sátt er um, þ.e. að hafa hér á landi ákveðið öryggisnet sem við viljum að sé fyrir alla þegna landsins.

Vandinn er sá að ekkert okkar er tilbúið til að sjá það fólk sem búið hefur hér á landi og hefur unnið fyrir sér en hefur ekki sýnt nægilega forsjálni — við erum ekki tilbúin til að horfa á fólk sem hefur enga framfærslu búa við eymd. Við teljum sjálfsagt og eðlilegt að hið opinbera komi þar að með einum eða öðrum hætti til aðstoðar. Þess vegna er þessi hugmynd um lífeyrissparnaðinn tilkomin og hún er ekki séríslensk. Það er hins vegar allt að því séríslenskt að hafa þennan sjóðasparnað.

Þá er ég að vísa til þess að í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við eru menn með svokallað gegnumstreymiskerfi. Það þýðir að þær kynslóðir sem greiða skatta greiða lífeyri til þeirra sem hættir eru að vinna. Það gengur ágætlega upp, virðulegi forseti, þegar aldurssamsetning er með þeim hætti að þegnunum fjölgar og yngra fólk er alltaf fleira en það sem eldra er. En í þeim löndum sem ég vísa til, í Evrópulöndunum, stærstu og fjölmennustu löndunum, er sú staða ekki lengur uppi, fólki fjölgar ekki, barneignum fækkar og þessar þjóðir horfa upp á gríðarlegan vanda, þær hafa ekki hugmynd um hvernig þær eigi að sjá fyrir þeim sem eldri eru þegar þessir stærstu árgangar komast á lífeyrisaldur. Það er að gerast á næstu árum.

Það er alveg ljóst að þetta er eitt af stærstu vandamálunum sem blasa við í Evrópu og er ein af ástæðunum fyrir því að stundum nota menn hugtakið „gamla Evrópa“ um Vestur-Evrópu. Við Íslendingar höfum verið svo lánsöm að við höfum um nokkra hríð haft það lífeyrissjóðakerfi sem við ræðum hér, eða anga af því. Það er í grófum dráttum með þeim hætti að við þurfum að greiða um 12% af launum okkar í lífeyrissjóð þó að það blasi kannski ekki við launþeganum enda greiðir atvinnurekandinn stærri hluta en launþeginn.

Þessi sparnaður hefur ákveðna sérstöðu á við annan sparnað, hann nýtur sérstakrar skattalegrar meðferðar. Þegar hér var eignarskattur illu heilli var hann eina sparnaðarformið sem bar ekki eignarskatt. Nú er hann eina sparnaðarformið sem ekki ber fjármagnstekjuskatt og það er umtalsverð umbun. Röksemdin fyrir þessu er einfaldlega sú að þar sem fólk fær ekki að taka þetta út fyrr en það hefur náð 60 ára aldri — eða ef það hefur lent í þeim aðstæðum að þurfa á örorkubótum að halda eða hljóta verulega örorku — sé þetta sparnaður sem nýtist fólki ekki. Það getur einungis greitt inn í sjóðinn en ekki tekið út úr honum. Það fær alla jafna ekki að gera það fyrr en það hefur náð 60 ára aldri, hið minnsta, en á móti kemur hinn sérstaki skattalegi sparnaður sem gerir það að verkum að þetta er langhagstæðasta sparnaðarformið þegar kemur að skattalegri meðferð.

Þetta kerfi er orðið afskaplega stórt og í þessum sjóðum eru miklir fjármunir. Þeir sem stýra lífeyrissjóðunum bera mjög mikla ábyrgð. Það er mín skoðun að við höfum gert ákveðin mistök á undanförnum árum og áratugum. Ég tel að heillavænlegra hefði verið — og ekki er nóg að löggjafinn hafi komið að því heldur líka þeir sem bera ábyrgð á sjóðunum — að hærra hlutfall af þessum eignum hefði verið fjárfest annars staðar en á Íslandi. Lífeyrissjóðir okkar Íslendinga eru ekki ósvipaðir olíusjóði Norðmanna. Það hefði verið mun skynsamlegra að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni. Ef við hugsum þetta út frá venjulegum Íslendingi þá á hann húseign á Íslandi, hann er með atvinnu sína á Íslandi og kannski stóran hluta sparnaðarins, í það minnsta eru hagsmunir hans mjög tengdir öllu því sem íslenskt er. Þegar síðan þetta stóra mál, lífeyrissjóðurinn — það hefði verið nær að hafa þau egg í annarri körfu.

Ef ég man rétt, virðulegi forseti, er í það minnsta varðandi grunnsparnaðinn hægt að verja allt að því helmingi af eign lífeyrissjóðanna erlendis, og þá er ég að vísa í þessi 12%, bæði í hlutabréfum og skuldabréfum. Ég held ég fari rétt með það — en síðast þegar ég skoðaði það var mjög óalgengt og jafnvel ekki til staðar að lífeyrissjóðirnir nýttu sér þá heimild, þeir nýttu sér ekki þessi 50%. Á ákveðnum tíma var þetta lægra hlutfall, 30% ef ég man rétt, og ekki eru mörg ár síðan þessu var breytt í 50% og var það m.a. gert að kröfu lífeyrissjóðanna. Ég held að það hefði verið betra ef menn hefðu haft hærra hlutfall annars staðar og það hefði örugglega gert það að verkum að hlutabréf, t.d. á íslenska hlutabréfamarkaðnum, hefðu ekki farið jafnhátt upp og raun bar vitni og þar af leiðandi hefði skellurinn sem varð orðið minni og spennan á íslenska markaðnum einnig.

Ásókn í annars konar sparnaðarform með hlutabréf hefði einnig minnkað ef þessir risavöxnu sjóðir á íslenskan mælikvarða hefðu dreift eignum sínum öðruvísi og fjárfest með öðrum hætti, ef þeir hefðu fjárfest meira í útlöndum en raun bar vitni. Nú er vissulega ekki tíminn til þess að fara þessa leið þegar við erum í þeirri endurreisn sem blasir við en við eigum að líta til lengri tíma. Ég held að þetta sé eitt af því sem við eigum að horfa til til framtíðar með, þ.e. að lífeyrissjóðirnir okkar fjárfesti í framtíðinni meira erlendis en við höfum gert í fortíðinni. Ég tek það þó skýrt fram að ég tel að það eigi ekki við núna.

Við erum líka að tala um, og það snýr að þessu máli — og þetta, virðulegur forseti, er eitt af þeim málum sem nefnt var, ég ætla ekki að fara að skammast mikið í núverandi ríkisstjórn en ég get þó ekki orða bundist. Þetta er eitt af þeim málum sem sagt var að hefði verið í svo miklum seinagangi í síðustu ríkisstjórn. Þegar menn sprengdu þá ríkisstjórn eftir mikið baktjaldamakk — og ýmislegt mun seinna koma í ljós þegar sagnfræðingar fara að skoða það, kannski var ekki allt sem sýndist í þeim málum öllum saman, og er ég þá að vísa til stjórnarmyndunarinnar, þá er þetta samt sem áður notað sem átylla. Talað var um að það þyrfti betri verkstjórn — jafnhjákátlegt og það hljómar nú — í fyrri ríkisstjórn og að þjóðþrifamál eins og þetta þyrfti að fara miklu hraðar í gegn.

Virðulegi forseti. Hvað er langt síðan sú ríkisstjórn sem nú situr var mynduð? Það er orðið ansi langt síðan. Eina mál nýrrar verkstjórnar sem komið er í gegn er lög um Seðlabanka, eitt mál. Ríkisstjórnin var mynduð til að taka á bráðavanda heimilanna og fyrirtækjanna og það átti nú aldeilis að bretta upp ermar og keyra mál með miklum hraða í gegn. Þetta mál var eitt af þeim fáu sem var nefnt og nú fyrst er það komið fram.

Talað var um það af núverandi stjórnarþingmönnum að þetta mál þyrfti ekki aðeins að keyra hratt í gegn heldur þyrfti að gera þetta með mjög myndarlegum hætti þannig að þetta mundi hjálpa þeim sem þurfa á aðstoð að halda. Það er ljóst að þetta mál hefur farið á hraða snigilsins í gegnum þessa ríkisstjórn. Það er líka algjörlega ljóst að þetta mál mun ekki valda neinum straumhvörfum hvað því viðvíkur að hjálpa því fólki sem þarf á aðstoð að halda miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi. Þetta eru bara staðreyndir sem liggja fyrir. Þetta er útvatnað miðað við þá hugmynd sem lagt var af stað með og í rauninni bendir margt til þess að þetta muni því miður ekki hjálpa nema að mjög litlu leyti en samt sem áður brjóta þau grundvallarprinsipp sem lífeyrissjóðakerfið byggist á.

Ég tel mjög vænlegt að hlusta á minni hluta nefndarinnar og það framhaldsnefndarálit sem liggur fyrir en þar er þetta mál rakið. Það er rakið alveg sérstaklega, sem mér finnst vera mjög mikið umhugsunarefni, að þetta er ákveðið sparnaðarform sem við höfum byggt upp, þ.e. lífeyrissjóðakerfið (Gripið fram í.) og þjónustan, og ekki mun einu sinni tekið tillit til þess eða miðað við það að þegar menn fara í útgreiðslu á þessu — sem er nú orðið afskaplega lítið og útvatnað eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson veit manna best og þekkir mjög vel og ég tala nú ekki um hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson. Þeir vita báðir að því var lofað að þetta mál yrði keyrt af miklum hraða í gegnum þingið. Það gekk ekki eftir. Þetta var málið sem menn töluðu um að mundi muna miklu fyrir fólkið í landinu og báðir þessir ágætu þingmenn vita að því fer víðs fjarri. Þeir gallar eru meira að segja á málinu að ekki er um það að ræða að þetta komi á móti skuldum fólks sem menn töldu grundvallarforsendu þegar þeir fóru af stað með þetta.

Menn voru tilbúnir til þess að brjóta þau prinsipp sem lágu til grundvallar lífeyrissjóðakerfinu vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi og til þess að hjálpa fólki sem þurfti á þessari aðstoð að halda. (Gripið fram í.) Lagt var af stað með það. Hér sitjum við uppi með útvatnað mál sem mun því miður ekki hjálpa fólki svo neinu nemi. Það kemur mjög á óvart að menn skuli ekki halda sér við það sem lagt var af stað með þegar menn voru að kynna þetta mál og kynna þessar hugmyndir. Í rauninni veit ég ekki til þess að neinn stjórnarliði hafi neitt útskýrt af hverju það er. Menn eru búnir að sitja á þessu, hanga með þetta frá því að ríkisstjórnin var sett á laggirnar, eftir hástemmdar yfirlýsingar alls staðar og hvergi um að þetta væri eitt af þeim málum sem virkilega þyrfti að keyra í gegn og vantaði nú aldeilis verkstjórnina til þess að svo mætti verða. Hver er niðurstaðan? (ÁÞS: Farðu nú að hætta þessu.) Fyrst núna er þetta mál að koma fram og þá er búið að útvatna það þannig að það mun ekki aðstoða þá sem þurfa á því að halda.

Virðulegi forseti. Málið er búið að vera á hraða snigilsins þvert á það sem var lofað og því miður er útfærslan með þeim hætti að það mun ekki hjálpa því fólki sem þarf á því að halda. Hér er fullt af glæsilegum fulltrúum stjórnarliða, hver öðrum glæsilegri, (BJJ: Þið talið.) og ég hlýt að spyrja af hverju menn hafi villst af leið. (Forseti hringir.) Ég efast ekki um að það mun koma fram hér í andsvörum. (Gripið fram í.)