136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[22:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það hefur verið alveg kostulegt að heyra þingmenn stjórnarliðsins og pólitíska fylgihnetti þeirra vera að móralísera yfir því að hér skuli fara fram efnisleg umræða um þetta stóra mál. Það er undarlegt að það sé þannig að stjórnarliðar séu strax eftir einn mánuð í stjórn farnir að væla og skæla yfir því að þeir skuli þurfa að svara einföldum spurningum um efnisatriði í stóru máli sem verið er að fjalla um. Eins og margoft hefur komið fram í þessum athugasemdum liggur fyrir að það var til þess ætlast að þetta mál fengi vandaða meðferð í þingnefnd milli 2. og 3. umr. Þegar það liggur svo fyrir að það kemur nefndarálit frá meiri hluta nefndarinnar sem er rýrt í roðinu og svarar ekki þeim grundvallarspurningum sem spurt hefur verið er ekkert óeðlilegt að reynt sé að fylgja því eftir með þeim aðferðum sem þingið hefur, þ.e. að taka málið upp í þinginu. Eða hvernig eiga þingmenn að koma að málinu ef það er ekki gert í þinginu og með þeim hætti sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa verið að gera, að benda á ýmsar veilur, spyrja spurninga o.s.frv.? Og það er undarlegt að þeir þingmenn sem hafa risið hæst í hávaða og látum undanfarna mánuði, þ.e. þingmenn til að mynda Vinstri grænna, skuli vera (Forseti hringir.) skælandi hér uppi í ræðustól yfir því að spurt sé einfaldra spurninga og krafist svara við spurningum sem verður (Forseti hringir.) að svara áður en þessu máli er lokið.