136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[22:56]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Auðvitað er hér ekkert annað í gangi en málþóf og ekkert annað en málþóf. Þrír samherjar spyrja flokksbróður eða -systur í andsvari. Mörgum sinnum eru búin að koma fram öll rök í þessu varðandi þetta frumvarp sem til umræðu er. Hér hafa lagt orð í belg ráðherrar sem eru búnir að kýla og böðla málum í gegnum þingið trekk í trekk og koma svo hér eins og einhverjir englar með geislabaug og tala um að það þurfi að vinna og fara í gegnum málin betur en gert hefur verið. Það sjá allir sem vilja að þetta er ekkert annað en málþóf.

Hænufet, sagði hv. þm. Guðlaugur Þór (Gripið fram í: Þórðarson.) Þórðarson, að þetta frumvarp væri. Í rauninni hefði það verið nóg innlegg. Hér koma svo þingmenn og tala um að aðrir þingmenn mæti illa í nefndir. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, sem er fyrrverandi formaður í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd, hefur hunsað umræður sem hafa verið um mál sem er búið að vísa til landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar trekk í trekk og hvorki Vinstri grænir né Samfylkingin sáu ekki sóma sinn í því að vera í umræðum um frumvarp um innkall á veiðiheimildum, létu ekki svo mikið sem sjá sig eða taka þátt í umræðunni. Þetta eru vinnubrögðin sem við upplifum hérna og okkur sem erum nýliðar á þinginu finnst furðulegt og skrýtið að það skuli vera þrír og fjórir þingmenn í salnum eins og nú er. Þetta eru engin vinnubrögð.

Ég er búinn að fylgjast með þessari umræðu í allan dag og allt kvöld. En við í Frjálslynda flokknum — jú, jú, við erum bara tveir eins og er en við verðum stærri. Við berum ekki ábyrgð á þeim óförum sem þjóðin er í í dag. (Gripið fram í.) Það er öllum ljóst að við berum ekki ábyrgð á því. En sjálfstæðismenn bera stærstu ábyrgðina á þeim óförum sem þjóðin er í og auðvitað skammast þeir sín fyrir stöðuna í þjóðfélaginu og eru hér að reyna að klóra yfir ýmsa hluti með því að vera í málþófi og vilja ekki fá alvöruumræðu um þeirra verk upp á síðkastið. Auðvitað hljóta þeir að skammast sín fyrir hvernig þeir hafa staðið að málum.

Jú, það hafa komið einstaka þingmenn fram hjá Sjálfstæðisflokknum og beðist afsökunar en hæstv. ráðherrar flokksins hafa ekki gert það. Þeir hafa ekki verið að biðjast afsökunar á því sem þeir hafa leitt yfir þjóðina, hörmungar til margra ára, gjaldþrot bæði fyrirtækja og heimila. Ég hefði haldið að sjálfstæðismenn ættu að líta sér aðeins nær, í eigin barm og athuga það að þeim ber skylda til að vera ekki að tefja þingið og reyna að taka þátt í því að láta mál sem skipta máli ganga fyrir (Gripið fram í: Eins og kvótamál.) eins og málefni heimilanna og eins og málefni atvinnulífsins. En hér er verið að eyða púðri í, eins og einn hv. þingmaður þeirra sagði, hænufet í rétta átt eins og Guðlaugur Þór Þórðarson sagði. Mér finnst að menn eigi aðeins að hugsa sinn gang og gera ekki Alþingi að einhverju enn þá meira leikhúsi en það hefur verið hingað til.