136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[23:30]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta er nokkuð sérstakt og það sannast enn og aftur að sú stjórn sem nú er við lýði er að breyta öllum vinnubrögðum. Hún er ekki bara að kollvarpa öllum vinnubrögðum varðandi t.d. stjórnarskrána — sem við sjálfstæðismenn munum ræða mjög gaumgæfilega þegar þar að kemur — heldur er ekki einu sinni komið til móts við óskir formanns þingflokks um fundarhlé til að fara yfir dagskrá og störf þingsins.

Það er alveg ljóst að ég á eftir að fara mjög vel yfir séreignarfrumvarpið. Ég hafði ákveðna skoðun á því við 2. umr. og þá kom það fram, sem var líka sérstakt að hlusta á, að ég mátti ekki tjá mig mjög mikið um það frumvarp af því að við áttum að keyra það í gegn, þetta sama frumvarp og við ræðum núna. Ég mátti ekki ræða það mjög mikið við 2. umr. og nú á eftir má ég bara alls ekki neitt ræða það. En ég mun nýta tíma minn í að fara mjög vel yfir þau sjónarmið sem nefndin setti fram í máli sínu og við ræðum það á eftir.