136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[23:35]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni afar vinsamleg orð í garð okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins og þakka honum fyrir það leyfi sem hann ætlar að veita okkur til að tjá okkur í þessari umræðu. Þannig vill til að það er líklegast að þingmenn Vinstri grænna skilji þörf annarra þingmanna til þess að tjá sig svo mikið sem hv. þm. Vinstri grænna hafa tjáð sig í vetur. Ef tölfræðin klikkar ekki þá hafa þeir tjáð sig að meðaltali í 7 klukkustundir en þingmenn Sjálfstæðisflokksins að meðaltali í 2 klukkustundir. Það er því ekki skrýtið að þeir skilji þessa þörf.

Herra forseti. Á ég virkilega að trúa því að hefja eigi umræðu um stjórnarskrána eftir miðnætti þegar þessari umræðu lýkur? Á þá að haga þeirri umræðu þannig að fyrsta ræðumanni Sjálfstæðisflokksins í umræðu um stjórnarskrármálið sé ætlað að hefja ræðu sína eftir miðnætti, um miðja nótt?