136. löggjafarþing — 97. fundur,  10. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[00:08]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Þegar 3. umr. um það mál sem hér er til umfjöllunar hófst í dag við upphaf þingfundar þá settu þingmenn Sjálfstæðisflokksins sig á mælendaskrá hver á fætur öðrum og hófu miklar umræður og fóru jafnvel í andsvör hver við annan í þessu máli. Ég sagði að það væri mín skoðun að þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætluðu sér bersýnilega að vera í málþófi í dag, kannski ekki aðallega til þess að tefja þetta mál heldur vegna þess að þeir væru að reyna að koma í veg fyrir að önnur mál, að næsta mál yrði tekið fyrir á dagskránni. Þessi umræða hefur nú staðið frá því síðdegis í dag og það er komið fram yfir miðnætti.

Nú bregður svo við að hæstv. forseti Alþingis greinir frá því að hann muni ekki taka fleiri mál á dagskrá þegar þessari umræðu lýkur og þá skyndilega rennur móðurinn af sjálfstæðismönnum og þeir ætla bersýnilega ekki að tala mikið meira. Það hefur því sannast sem við höfum haldið fram í dag í umræðum um fundarstjórn og í andsvörum að sjálfstæðismenn væru að fara í þessa umræðu og halda henni svona áfram fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að næsta mál (ArnbS: … fá umræðu hjá formanni nefndarinnar eða varaformanni nefndarinnar.) yrði tekið á dagskrá og nú kemur í ljós að það sem við sögðum um málflutning sjálfstæðismanna er að sjálfsögðu alveg hárrétt. (ArnbS: Við skulum bara ræða þetta betur.)

Ég hef ekki tekið til máls í þessari umræðu fyrr en nú í 3. umr. en hafði rætt þetta mál á fyrri stigum í umræðunni, (ArnbS: … að hafa svarað einhverju af því sem fram hefur komið.) þ.e. í fyrri umræðum og sjálfsagt líka á vettvangi nefndarinnar. Hér hefur komið fram veruleg gagnrýni úr röðum sumra sjálfstæðismanna á vinnubrögð efnahags- og skattanefndar í þessu máli. Það sem ég vil segja um það er að þeir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hafa verið að gagnrýna vinnubrögðin eru fyrst og fremst þingmenn sem ekki eiga sæti í efnahags- og skattanefndinni og hafa þar af leiðandi ekki (ArnbS: … kemur fram í nefndarálitinu.) tekið þátt í umræðunni á vettvangi nefndarinnar og ég vil leyfa mér að gagnrýna það.

Ég hef líka vakið máls á því að sú breytingartillaga sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lagt fram lá fyrir þegar, (Gripið fram í.) hæstv. forseti, má ég fá ráðrúm til að flytja mál mitt fyrir frammíköllum þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins?

Það kom fram í máli mínu að breytingartillagan frá hv. þm. Pétri H. Blöndal lá fyrir við 2. umr. um málið. Hv. þingmaður hafði reifað hugmyndir sínar á vettvangi nefndarinnar og þær fengu umfjöllun þar. Það er heldur ekki rétt sem hér hefur verið sagt að ekki hafi verið tekin afstaða til hluta sem komu fram í umsögnum og hér m.a. nefnt Fjármálaeftirlitið. Það er sérstaklega nefnt í meirihlutanefndaráliti sem var undir við 2. umr. málsins. Þessi gagnrýni er því ekki sanngjörn að mínu mati og það er ástæðan fyrir því að ég bregst við með þeim hætti sem ég hef gert nú í upphafi ræðu minnar. Ég tel að umfjöllun um þetta mál í nefndinni hafi verið bæði ítarleg og málefnaleg. Ég get alveg sagt það frá mínum bæjardyrum að ég tel að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi gert grein fyrir sjónarmiðum sínum á vettvangi nefndarinnar á mjög málefnalegan hátt. Um viðhorf hans í þessu máli eru bara ekki allir sammála og það fór fram ágæt umræða um þau málefni þar.

Það var óskað eftir því að málið kæmi til umræðu í nefndinni á milli 2. og 3. umr. og að sjálfsögðu var orðið við því eins og eðlilegt var og sömuleiðis var málið tekið til umfjöllunar í nefndinni á meðan málið var enn þá til 2. umr., til að fjalla um sömu tillögu og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lagt fram.

Það hefur verið sagt í þessari umræðu að þetta mál sé einungis hænufet fram á við. Það hefur enginn haldið því fram af hálfu stjórnarflokkanna að hér sé einhver allsherjarlausn á þeim vanda sem fjölskyldurnar og heimilin í landinu standa frammi fyrir, það hefur enginn haldið því fram. Við höfum hins vegar sagt að þetta sé mikilvægur liður, mikilvægur þáttur í þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin er að grípa til til þess að leysa vanda heimilanna. Þetta er ein aðgerð af mörgum.

Þegar hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir málinu við 1. umr. gerði hann grein fyrir því að sú leið sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur mælt fyrir hafi líka verið skoðuð. Sú leið sem var í undirbúningi í tíð fyrrverandi fjármálaráðherra, hv. þm. Árna Mathiesens, að útgreiðsla séreignarsparnaðar gengi upp í til greiðslu skulda var líka rædd.

Þegar ég les yfir ræður þingmanna við 1. umr., m.a. ræðu hv. þm. Árna M. Mathiesens og andsvör hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur við framsöguræðu fjármálaráðherra get ég ekki skilið þær öðruvísi en að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi verið ánægðir með þetta mál. Þrátt fyrir að fram komi hjá þeim spurningar um tiltekna hluti í útfærslunni gat ég ekki skynjað það öðruvísi en að þeir væru sáttir við þetta mál. Sömuleiðis endurspeglaðist í atkvæðagreiðslunni við 2. umr. almenn samstaða um frumvarpið og þær breytingar sem þar voru gerðar.

Ég ætla að leyfa mér að vísa til minnisblaðs sem barst eða kom inn á nefndarfundinn þegar tillögur hv. þm. Péturs H. Blöndals voru ræddar milli 2. og 3. umr. og Landssamtök lífeyrissjóða lagði fram minnisblað í tilefni af þeim. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Með þessari leið er í raun verið að gera séreignarsparnaðinn að fullu veðsetjanlegan að því marki sem einstaklingum væri heimilt að fara þessa leið.“

Síðan segir áfram:

„Það fylgir því talsvert utanumhald fyrir lífeyrissjóði, og þar með kostnaður, að fara að gefa út fjölda skuldabréfa með kröfu á séreignardeild. Sú leið er einnig mjög til þess fallin að skaða þá meginhugsun sem býr að baki kerfinu, þ.e. að með einföldum hætti byggi sjóðfélagar sér upp séreignarsparnað sem er mikilvæg viðbót við ellilífeyri úr samtryggingadeild þegar, sem og áfallalífeyri við fráfall og örorku. Með þessu væru réttindi í séreignarsparnaði farin að ganga kaupum og sölum. Vel má ímynda sér eftirmarkað með yfirgengi og afföllum. Þetta er mjög til þess fallið að eyðileggja það lífeyriskerfi sem verið er að byggja upp.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Vandséð er með hvaða hætti slíkar greiðslur ættu að gagnast stórum hluta lánveitenda, til að mynda bönkunum, lánveitendum sem almennt fjármagna sig stutt en lána langt í formi fasteignaveðlána. Hér verður að hafa í huga að að öðru óbreyttu er séreignin ekki greidd út fyrr en við 60 ára aldur. Vandséð er að kröfuhafar mundu taka við greiðslu í formi slíks skuldabréfs sem hér um ræðir nema með afföllum.“

Hér gerði hv. þm. Pétur H. Blöndal líka að umtalsefni umsögn frá Allianz og segir að hún hafi ekki verið rædd. Fulltrúi Allianz kom á fundinn í efnahags- og skattanefnd og ræddi sjónarmið sín og því fengum við upplýsingar um hvaða viðhorf eru þar á ferðinni.

Í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða segir einnig, með leyfi forseta:

„Í umræðu í efnahags- og skattanefnd var nefnt að víða í Evrópu væri einstaklingum heimilað að veðsetja lífeyrissparnað sinn. Gera má ráð fyrir því að hér sé verið að vísa til söfnunarlíftryggingar. Það er ekki rétt að leggja þessar leiðir að jöfnu. Margir hugsa söfnunarlíftryggingu sem fjárfestingarplan og er nauðsynlegt að skoða þessa hluti mun betur áður en farið væri að draga einhverjar ályktanir af slíku.“

Þessi leið er því líka umdeild í sjálfu sér og hún er ekki alveg einföld. Það kom fram í máli fulltrúa fjármálaráðuneytisins sem kom á fund nefndarinnar að það væri mat þeirra að ef fara ætti þessa leið þá yrði að skoða hana út frá mörgum öðrum hliðum mun ítarlegar en gert hefði verið. Það er ástæðan fyrir því að við höfum í framhaldsnefndaráliti okkar lagt til að það verði gert.

Við teljum að sú leið sem frumvarpið gerir ráð fyrir mæti tilteknum hópi og komi til móts við tiltekin sjónarmið. Hún tryggir líka ákveðið jafnræði þannig að allir sem eiga séreignarsparnað geti þá tekið út upp að vissu hámarki séreignarsparnað sinn án tillits til þess hvernig þeir hyggjast nýta hann. Það þýðir að t.d. þeir sem ekki eiga húsnæði, búa í leiguhúsnæði, hafa hugsanlega lækkað í tekjum og eiga einfaldlega bara erfitt með að láta enda ná saman frá degi til dags geta nýtt þennan séreignarsparnað ef þeir svo kjósa. En sú leið sem breytingartillaga Péturs H. Blöndal gerir ráð fyrir nýtist þeim hópi alls ekki. Hún mundi alls ekki nýtast þeim hópi sem býr ekki í eigin húsnæði, er í leiguhúsnæði, er ekki með þannig skuldir en þarf viðbótartekjur til þess að láta enda ná saman. Sú leið mundi því ekki mæta þörfum þessa hóps.

Það komu fram upplýsingar um meðalinneign í séreignarsparnaðarsjóðnum eftir aldri. Það kemur í ljós að við 40 ára aldur er meðalinneignin í séreignarsparnaðarsjóðnum u.þ.b. 6–700 þús. kr. Við 46 eða 47 ára aldur nær hún einni milljón. Við 55 ára aldur er meðalinneignin um 1,5 milljónir. Ég hygg því að sú leið sem hér er farin með einni milljón að hámarki geti nýst mjög mörgum.

En við höfum líka við það sjónarmið að leiðarljósi, m.a. með hagsmuni lífeyriskerfisins í heild, að fara varlega í þessu efni. Ég tók eftir því að við 1. umr. tóku hv. þm. Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, undir mikilvægi þess að sýna ábyrgð í þessu efni og taka einhver skref í þá átt. Ég varð því ekki var við annað en að það hafi verið ágæt samstaða um þetta mál alveg þangað til kemur að 3. umr. og ég harma það.

Ég vil halda því fram að efnahags- og skattanefnd hafi fjallað um þetta mál á breiðum grunni. Þar er fjallað um frumvarpið og að sjálfsögðu eru gerðar á því ákveðnar breytingar sem prýðileg samstaða var um og þess vegna kemur það mér á óvart þegar málið tekur þessa beygju við 3. umr. af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Ég geri mér mætavel grein fyrir því að það kann vel að vera að þessi leið ein og sér dugi ekki og það þurfi að gera frekari ráðstafanir, frekari breytingar í framhaldinu. En þá eigum við að taka okkur tíma til þess að skoða þær í ljósi reynslunnar af þeim breytingum sem hér eru lagðar til og í ljósi reynslunnar af öðrum aðgerðum sem verið er að fjalla um hér í þinginu og grípa til, t.d. greiðsluaðlögunarmálin og sjá hvernig reynslan verður af því. Það mun ekki standa á núverandi ríkisstjórnarflokkum að fara í þá vinnu, hvorki af hálfu fjármálaráðuneytisins né síðan í framhaldinu hér í þinginu ef við teljum að það sé nauðsynlegt. Ég (Forseti hringir.) mælist því til þess að menn horfi á þetta þeim augum (Forseti hringir.) að hér sé verið að stíga mikilvægt skref í þágu heimilanna og fjölskyldnanna og jafnvel þótt (Forseti hringir.) þeim þurfi að fylgja frekari skref á síðari stigum þá eigum við að taka (Forseti hringir.) þau þá.