136. löggjafarþing — 97. fundur,  10. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[00:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Það er margt hægt að segja um þetta mál, sem í megindráttum er ágætt. Það er hárrétt, sem kom fram í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, að við sjálfstæðismenn fögnuðum vel flestir þessu máli í aðalatriðum. Við töldum það skref í rétta átt en að það næði samt ekki að mæta þeim þörfum og þeim vanda sem við glímum við, sem er vandi heimilanna og hvernig fólk getur staðið frammi fyrir því að greiða skuldir sínar.

Ég tel að sú umræða sem átt hefur sér stað í dag hafi verið mjög málefnaleg af allra hálfu. Ég verð þó að segja að ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom hér upp áðan og fór að hnýta í, að mínu mati, málfrelsið hér á þingi, þ.e. þann rétt að tjá sig um málefni sem eru til umræðu hverju sinni.

Það er svolítið sérstakt að upplifa það að maður megi vart ræða málin við 2. umr. því að það sé svo mikilvægt að koma því áfram og svo megi alls ekki ræða það við 3. umr. af því að það sé í raun útrætt. Ég held að framhaldsnefndarálitið frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar sýni að málið var ekki fullbúið eftir 2. umr. Mjög málefnaleg sjónarmið og rök komu fram, ekki síst frá hv. þm. Pétri H. Blöndal sem hefur unnið mjög vel í þessu og sett mál sitt mjög skýrt fram. Í framhaldsnefndaráliti meiri hluta efnahags- og skattanefndar komu ekki fram lagabreytingartillögur en engu að síður er hnykkt á ákveðnum atriðum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur brýnt að frumvarpið verði samþykkt“ — við erum sammála því — „með áorðnum breytingum sem hann lagði til við 2. umræðu málsins. Meiri hlutinn telur það jafnframt koma til greina að endurskoða fyrirkomulag útgreiðslu að fenginni reynslu og með hliðsjón af öðrum úrræðum til lausnar greiðsluvanda einstaklinga og heimila.“

Þetta hafa menn margrætt hér í dag. Síðan kemur þessi skondna setning frá þeim hópi sem hvað mest hefur talað um vægi þingsins, að þingið eigi að sjá til þess að málin komi hingað og fari héðan fullbúin. Mælst er til þess að málið verði í rauninni klárað af hálfu fjármálaráðuneytisins. Í nefndarálitinu segir áfram, með leyfi forseta:

„Mælist nefndin til þess að fjármálaráðuneytið skoði breytingartillögu minni hlutans í þessu ljósi og meti þörfina á frekari úrræðum á síðari stigum.“

Fjármálaráðuneytið á að skoða þessa breytingartillögu minni hlutans, þ.e. hv. þm. Péturs H. Blöndals. Menn vilja ekki alveg gefa þessa tillögu frá sér, það er „haltu mér, slepptu mér“ en það verður að ýta málinu áfram af því að það er rétt sem kemur fram, það er mikilvægt að það komi fram, en við hefðum viljað sjá ákveðnar breytingar á því þótt við séum ekki öll alveg nákvæmlega sammála þeirri nálgun.

Ég dró fram við 1. umr., í andsvörum mínum, þennan ótta, annars vegar að ákveðið áhlaup yrði á lífeyrissjóðina vegna þessa möguleika. Eins og margoft hefur verið bent á er um að ræða eign þeirra sem hafa greitt í sjóðina. Það er tvímælalaust þannig, þetta er eign þeirra sem hafa greitt í þessa sjóði. Fólk á að hafa ákveðið svigrúm til að nýta sér þá eign við þær óvenjulegu aðstæður sem uppi eru í íslensku samfélagi, til að koma sér út úr þeim erfiðleikum sem við blasa, fyrst og fremst vegna mikilla skulda.

Þá er það einmitt það sem hefur verið undirstrikað af okkar hálfu, fjárhæðin, 1 milljón, dreifð á tíu mánuði dugar oft og tíðum skammt þegar um skuldir upp á 2, 3 og 4 milljónir er að ræða. Hvað er þá til ráða? Jú, annars vegar benti ég á við 1. umr. að skoða hvort mögulegt væri að nýta þær skatttekjur sem við fáum við úttektina á sparnaðinum og Seðlabankinn dregur fram. Það er nálægt þeirri fjárhæð sem ég talaði um í ræðu minni á sínum tíma, ríkið fær um 34 milljarða í skatttekjur af því að greiða út þennan séreignarsparnað. Þetta er nokkurn veginn það gat sem ríkisstjórninni er ætlað að fylla upp í varðandi fjárlögin, ekki alveg nægilega há tala en mjög há upphæð og mjög drjúg — það er mjög auðveld leið fyrir ríkisstjórnina að fara og komast þar með hjá því að taka á ákveðnum málum sem tengjast ríkisfjármálum sem engu að síður er nauðsynlegt og mikilvægt að taka á.

Ég taldi rétt að skoða hvort ekki væri hægt að nota hluta af skatttekjunum til þess m.a. að efla kaupendahlið markaðarins sem mundi hugsanlega veikjast þegar séreignarsparnaðurinn yrði greiddur út, þ.e. ég var með það í huga að gæta yrði að hagsmunum þeirra sem eftir yrðu í sjóðunum. Ég tel að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi komið með ákveðna lausn hvað þetta varðar, aðra lausn sem hafði ekki komið til tals við 1. eða 2. umr. málsins, og mér fannst mjög þarft og mikilvægt að ræða hana.

Svo er það hin hliðin, dugar þetta úrræði? Nei, það dugar ekki, auðvitað dugar þetta úrræði ekki eitt og sér. Við þingmenn höfum verið beðnir um að hafa svigrúmið meira til að greiða niður skuldir. Fólk segir: Gott og vel, við erum í tímabundnum erfiðleikum, við eigum u.þ.b. 3–5 milljónir í sjóðnum — að meðaltali eiga Íslendingar það — af hverju megum við ekki nýta a.m.k. 2–3 milljónir, þ.e. tvo þriðju af þeirri eign okkar?

Hægt væri að hafa það að hámarki, þeir sem eiga meira en 10–15 milljónir, sem eru reyndar þó nokkrir — aldrei yrðu greiddar út meira en 10 milljónir. Þetta var ekkert skoðað, ekkert athugað. Við verðum að leita allra leiða til að veita fólki svigrúm til að greiða niður skuldir sínar og ég tel mikilvægt að fólk nýti þetta til að greiða niður skuldir en setji þetta ekki endilega í aðrar leiðir. Mér fannst öll sú vinna sem hv. þm. Pétur H. Blöndal lagði í frumvarpið allrar athygli verð og tvímælalaust verður að skoða þá leið mun betur. Mér finnst miður að sú leið hafi ekki verið betur yfirfarin af hálfu efnahags- og skattanefndar. Það var einhver rembingur í mönnum að reyna að koma málinu út. Hefði ekki verið betra að taka einn dag í viðbót og skoða þetta mál af þeirri dýpt sem þingið á að sjá til að gert sé en ekki fjármálaráðuneytið? Hefði það ekki verið nær sanni og meiri bragur á því að þingið hefði getað komið sér saman um þetta mikilvæga mál? Við léðum máls á því strax við 1. og 2. umr. að koma þessu máli áfram.

Við erum öll af vilja gerð til að efla málið og styrkja, gera það betur úr garði þannig að það mæti þörfum fólksins. Ég hef líka dregið það fram í dag að það er ekki þannig að það sé hægt — og það er fásinna að tala hér um málþóf, því að við sjálfstæðismenn höfum stutt við þau mál sem eru til þess fallin að styrkja heimilin, efla atvinnu o.s.frv. Ég hef nefnt það sérstaka tilvik sem kom upp hér á föstudaginn þegar fresta þurfti atkvæðagreiðslu vegna ónógrar þátttöku stjórnarflokkanna og Framsóknar. Einn framsóknarmaður var í salnum og síðan þurftum við að bíða eftir bæði Samfylkingu og Vinstri grænum í salinn.

Það hefur verið eftirtektarvert að við höfum ekki fengið að sjá framan í mörg andlit frá Samfylkingunni. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur staðið vaktina vel í dag, hann hefur komið með athugasemdir, ég hefði viljað heyra meira í honum vegna þeirrar vinnu sem átt hefur sér stað, bæði innan nefndarinnar og utan. (Gripið fram í.) Ég hefði gjarnan viljað sjá fleiri af samherjum hans, bæði vinstri græna og ekki síður samfylkingarmenn, koma og tjá sig um málið. Það kann þó að vera að það sé vegna þess að þegar Samfylkingin var með okkur í ríkisstjórn lagði hún málið upp með allt öðrum hætti en við ræðum hér.

Það er hugsanlegt að Samfylkingin hálfskammist sín fyrir frumvarpið, það lítur út fyrir það. Ég ætla henni það ekki, heldur miklu frekar að hún sé með skottið á milli lappanna vegna þess að hún þurfti að breyta afstöðu sinni gagnvart málinu öllu.

Brýnasta málið er að leysa vanda heimilanna og fyrirtækjanna. Þegar við ræðum hér um úrræði, eins og þetta séreignarsparnaðarúrræði, úttekt úr séreignarsparnaðinum, erum við einmitt að reyna að koma til móts við það fólk sem stendur í erfiðleikum vegna skulda. Hvað er það sem skiptir öllu máli, hvaða breyta skiptir öllu máli fyrir fólkið þegar það stendur frammi fyrir því að greiða skuldir? Það er það að hafa atvinnu. Ef fólk hefur ekki atvinnu breytast líka forsendur þess til að geta greitt skuldir sínar.

Það mikilvægasta sem við stöndum frammi fyrir í íslensku samfélagi er að lækka vexti. Ég segi: Guð láti gott á vita ef það er rétt, sem hæstv. forsætisráðherra sagði hér fyrr í dag, að við stöndum frammi fyrir lækkun vaxta í næstu viku. Það er vissulega gott ef satt er en það er því miður fimm vikum seinna en efni í rauninni standa til. Það er ljóst að af hálfu Seðlabankans, sem m.a. sendi frá sér ályktun út af séreignarsparnaðinum, sem við höfum rætt hér í dag, hefðum við getað lækkað vexti ef ekki hefði komið til stjórnarkreppa og vaxtalækkuninni hefur nú seinkað um rúmar fimm vikur, m.a. vegna þessa.

Hún er þegar orðin ansi dýr, þessi ríkisstjórn, en ég vonast innilega til þess að lækkun vaxta verði að veruleika í næstu viku. Það er eitt það mikilvægasta fyrir heimilin og ekki síst fyrirtækin sem við verðum að halda gangandi. Við töluðum um það fyrr í dag að við þyrftum að skapa störf, það er gott. Þá verða málin að koma hingað inn í þingið, málin sem skipta skattumhverfið máli, varðandi rannsóknir og þróun, málin sem tengjast endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar og fleiri mál sem tengjast fiskvinnslu og fleiru til að við getum farið að vinna í því að skapa störfin. Það skiptir ekki síður máli að við verjum þau störf sem fyrir eru í landinu og það kann að reynast okkur mjög erfitt. Það skiptir mestu að tryggja atvinnuna og hugsa upp leiðir í því að efla atvinnustig. Geta fólks til að greiða af lánum breytist að sjálfsögðu mest við atvinnuleysið, þess vegna þurfum við m.a. að huga að því hvernig við getum byggt upp þannig kerfi að fyrirtæki geti haldið áfram, þau fyrirtæki sem eru starfandi, það þarf að tryggja að þau geti starfað áfram.

Ég tel líka mjög mikilvægt að við fáum sem fyrst inn frumvarp fjármálaráðherra — ég veit ekki hvort það verður hæstv. fjármálaráðherra eða forsætisráðherra sem mun flytja frumvarp um eignaumsýslufyrirtækið. Ég held reyndar að orðið eignasölufyrirtæki sé mun betra eins og fram hefur komið í greinum sérfræðinga, t.d. Jóns Steinssonar og Gauta Eggertssonar, sem sömdu athyglisverða grein um þá leið. Ég held að það skipti okkur miklu máli til að við getum áttað okkur á hvaða tökum við eigum að taka erfiðleika fyrirtækja, hvernig við eigum að afgreiða eignasölufyrirtækin og hvaða leiðir við eigum að fara til að hjálpa bönkunum að komast út úr því stoppi sem þeir eru í rauninni í.

Hæstv. forseti. Varðandi séreignarsparnaðinn er athyglisverð umsögn Seðlabanka Íslands sem dregur m.a. fram þau tvö atriði sem skipta meginmáli. Ég hef þegar minnst á það mikla hagræði varðandi ríkissjóð sem verður af því máli, ef allt það fé sem losnar til útborgunar verður greitt út, með leyfi forseta, eins og stendur í álitinu geta beinar skatttekjur hins opinbera aukist um allt að 34 milljarða og ráðstöfunartekjur heimilanna aukist um 55 milljarða. Ekki er þó líklegt að til svo mikilla útgreiðslna komi þar sem ekki er hagstætt fyrir innstæðueiganda að hliðra til tekjum með þessum hætti nema ráðstöfunartekjur hans í dag dugi ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum.

Síðan er hitt atriði frá Seðlabankanum: „Ef annað meginmarkmiða laganna er að skapa ný félagsleg úrræði fyrir þá sem eru verst staddir fjárhagslega til skemmri tíma vegna nýrra efnahagsáfalla þá er hætt við að þau markmið náist ekki ef allir eiga sama rétt til takmarkaðrar útgreiðslu, óháð aðstæðum og mati á þörf.“

Þetta eru þau sjónarmið sem Seðlabankinn setti fram í (Forseti hringir.) umsögn sinni. Ég tel einmitt að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi gert ágætlega grein fyrir sjónarmiðum sínum sem (Forseti hringir.) eiga að koma til móts við það að reyna að hjálpa til við að auka svigrúm fyrirtækja og fólksins í landinu til að (Forseti hringir.) greiða niður skuldir sínar. Ég held að það skipti miklu máli í þessu öllu en ég hefði viljað sjá stærra skref stigið.