136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:30]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er miklu hlynntari því að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskránni og vísa málinu þannig til almennings en að kalla saman stjórnlagaþing og afsala Alþingi þessu valdi. Ef menn vilja leita málamiðlunar í þessu tel ég að hún eigi að felast í því að Alþingi hafi frumkvæðisrétt og fjalli um málið, komist að sinni niðurstöðu og síðan, samkvæmt einhverjum formúlum, verði unnt að bera það undir þjóðina og fá samþykki hennar. Það þurfi ekki endilega að vera hluti af því að rjúfa þing og efna til nýrra þingkosninga.

Ég tek undir það sjónarmið sem fram hefur komið, og mér finnst að það sé skynsamlegt sjónarmið, að yfirleitt hverfa stjórnarskrárbreytingar í skuggann af hinni almennu kosningabaráttu og stjórnmálabaráttu þegar efnt er til kosninga. Til þess að árétta mikilvægi þess að verið sé að breyta stjórnarskránni finnst mér að það eigi að skoða það til þrautar að breyta þessu. En ég er ekki hlynntur því og skil ekki það metnaðarleysi þingmanna sem koma hér og tala um að það sé lífsnauðsynlegt að afsala Alþingi valdinu til þess að leggja tillögurnar fram og móta og gera þær.

Varðandi náttúruauðlindirnar var ég í ríkisstjórn sem flutti frumvarp árið 2007 varðandi þjóðareign á náttúruauðlindum þannig að ég hef ekki lagst gegn því. Hins vegar tel ég að skilgreiningin á hugtakinu „þjóðareign“ sé mjög óljós en ég tel að þessi grein eins og hún er hér, þessi langa 1. grein, sé algjörlega óhæf til þess að fara í stjórnarskrá. Hún er allt of flókin til þess að eiga erindi í stjórnarskrá og kallar á meiri vanda en hún leysir með því að stjórnarskrárbinda svona flókinn texta.