136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:38]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskránni. Ég hef lítillega fylgst með umræðunum hér í dag en hef ekki hlýtt á alla umræðuna.

Ég vil byrja á því að segja að mér finnst það hvernig til þessa máls var stofnað mjög mikið umhugsunarefni, ekki bara það að hér hafi verið látið undir höfuð leggjast að leita samráðs allra flokka um breytingar á stjórnskipuninni heldur líka það að menn skuli láta sér detta það í hug núna á þessum tímum sem við erum að upplifa, þar sem við erum við upphaf endurreisnar efnahagslífsins, að gera breytingar á stjórnarskránni skömmu fyrir kosningar.

Vissulega hefur maður skilning á því að menn vilji freista þess að nota tækifærið vegna þess hvernig reglur um breytingar á stjórnarskránni eru gerðar í dag og í ljósi þess að kosningar eru í aðsigi að grípa þá til breytinga. En maður hefði þá ætlað að það yrði gert á þeirri forsendu að það væri víðtæk sátt um slíkar breytingar. En slíku er ekki til að dreifa í þessu máli.

Í annan stað hlýtur maður að staldra við þá mótsögn sem augljós er í málinu og birtist í því að hér er annars vegar út frá því gengið að afar brýnt sé að koma á stjórnlagaþingi til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins og eins og segir í 4. gr. frumvarpsins að það skuli koma saman eigi síðar en 1. desember á þessu ári og það hafi nú ekkert minna hlutverk en það að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins þar sem byggt verði áfram á lýðræðisskipan, réttarríki og vernd mannréttinda, nefnilega sem sagt bara að endurskoða stjórnarskrána frá grunni. Það verður ekkert skilið öðruvísi. En á sama tíma og hrint er af stað þessu mikilvæga verkefni, heildarendurskoðun á stjórnarskránni þá leggja höfundar frumvarpsins til þrjár viðbótargreinar, þ.e. leggja til tilteknar breytingar á þessari sömu stjórnarskrá. Nú hlýtur maður að spyrja sig. Hvort er það vegna þess að þeir treysta ekki stjórnlagaþinginu til þess að hrinda þessum breytingum í framkvæmd eða vegna þess að það eru þessar tilteknu breytingar sem eru svo afskaplega brýnar að þeim er teflt hér fram samhliða stjórnlagaþingshugmyndinni?

Það er nefnilega þannig í frumvarpi Framsóknarflokksins um stjórnlagaþing að til rökstuðnings hugmyndinni er nefnt að það sé svo brýnt að breyta stjórnarskránni að þingið hafi þótt of svifaseint og verkferlið allt saman of þunglamalegt að það þurfi hreinlega að taka þetta mjög svo brýna verkefni úr höndum þingsins og færa það á sérstakan vettvang.

Hvaða mál eru sérstaklega tilgreind þá í því sambandi? Hvaða mál er sérstaklega brýnt að verði endurskoðuð? Og vel að merkja, hvaða mál voru það sem stjórnarskrárnefndin var til að mynda sérstaklega að skoða í þessu? Jú, eru það ekki mál eins og þingræðisreglan, hvernig henni verði betur fyrir komið í stjórnarskránni, þrískiptingin hvernig hún verði nánar útlistuð? Eru það ekki einmitt mál eins og staða og hlutverk forsetaembættisins, hvernig eigi að tvinna saman 26. gr. stjórnarskrárinnar við mögulega nýja grein um þjóðaratkvæðagreiðslu? Er það ekki til að mynda það að í stjórnarskránni er hvergi minnst á Hæstarétt og það þurfi að renna styrkari stoðum undir tilvist hans í stjórnarskránni? Ég hélt að það væru einmitt þessi atriði sem væri svo brýnt að taka til endurskoðunar. En, nei. Höfundar þessa frumvarps ganga út frá því að aðrar breytingar séu enn þá brýnni og miklu brýnni reyndar og svo brýn nauðsyn sé að samþykkja auðlindaákvæðið í 1. gr. þessa frumvarps, breytingar á 79. gr. hennar um það hvernig breyta skuli stjórnarskránni og síðan ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu, að það verði ekki beðið með þau atriði. Merkilegast þykir manni þó auðvitað að stjórnlagaþingið sem á að taka til starfa síðar á þessu ári skuli ekki treyst til þess að fjalla um þetta sérstaklega.

Mig langar áður en ég vík að einstökum efnisatriðum frumvarpsins nánar, þ.e. fyrstu þremur greinunum og síðan þeirri fjórðu sem fjallar um stjórnlagaþingið, að vekja athygli á einu. Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð var það á grundvelli stuðnings frá Framsóknarflokknum sem hugðist styðja ríkisstjórn þessa eða verja hana vantrausti. Fyrir því voru sett ákveðin skilyrði. Í fyrsta lagi að kosið yrði 25. apríl eða eigi síðar að minnsta kosti. Í öðru lagi kom fram þessi hugmynd um stjórnlagaþing sem Framsóknarflokkurinn lagði mikla áherslu á og svo í þriðja lagi — og ég vona að ég sé ekki að gleyma mörgum mikilvægum atriðum — en í þriðja lagi, eins og ég man þetta, þá lagði Framsóknarflokkurinn áherslu á að á því þingi sem nú er að störfum og mun starfa fram að kosningum þá mundu menn einbeita sér eingöngu að brýnum úrlausnarefnum vegna vanda heimilanna og atvinnulífsins.

Það virðist vera að Framsóknarflokkurinn hafi í millitíðinni hlaupið frá þessum skilyrðum vegna þess að nú skyndilega er hann kominn á þá skoðun að ástæða sé til að gera nokkrar viðbótarbreytingar. Framsóknarflokkurinn hefur sem sagt horfið frá þeirri skoðun sinni að það mikilvægasta sem við gerum á þessu þingi fram að kosningum sé að ræða stöðu atvinnuveganna og vanda heimilanna. Hann hefur horfið frá þeirri skoðun. Hann er þeirrar skoðunar eins og Frjálslyndi flokkurinn sem á fulltrúa í þessu máli, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, Vinstri hreyfingin – grænt framboð með formann sinn, hæstv. fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon, sem flutningsmann og síðan hæstv. forsætisráðherra sem flytur þetta mál sem fyrsti flutningsmaður en í millitíðinni eru þau sem sagt orðin sammála um að eitt það brýnasta sem þurfi að leysa úr séu breytingar á stjórnarskránni, að grundvallarlögskipun landsins, grundvallarlögin, þurfi að taka breytingum.

Ég verð fyrir mitt leyti að segja að mér finnast þetta vera forkastanleg vinnubrögð að ætla á örfáum dögum að þvinga í gegn jafnróttækar breytingar á stjórnarskránni og frumvarpið geymir og leggja upp með það að slíkar breytingar skuli gerðar án samráðs allra flokka. Ég vil vekja athygli á einu í því sambandi. Breytingartillaga frá stjórnarskrárnefndinni sem laut að því hvernig við breytum stjórnarskránni, þ.e. hvernig við tækjum 79. gr. til endurskoðunar, gekk út frá því að lágmarkstími þyrfti að líða á milli umræðna. Sú tillaga gerði reyndar ráð fyrir því að ekki væri hægt að afgreiða frumvarp eins og þetta nema á nokkrum mánuðum í þinginu. Tryggilega var frá því gengið í þeirri tillögu að engar breytingar væri hægt að þvinga fram með þeim hætti sem hér er gert og ég man ekki betur en að um þetta væri ágætis sátt í stjórnarskrárnefndinni, sem aldrei lauk störfum endanlega en hafði þó komið sér saman um ákveðnar breytingar á þessu atriði, um að óskynsamlegt væri og óverjandi að gera þinginu kleift að hrinda skyndilega í framkvæmd breytingum á stjórnarskránni, á grundvallarlöggjöfinni. Þegar menn gá betur að sér er auðvitað eina skynsemin að standa þannig að málum.

Ég ætla þá að víkja að einstökum efnisatriðum. Í 1. gr. er fjallað um auðlindaákvæðið. Hugtakið „þjóðareign“ sem birtist þar hefur lengi verið afar umdeilt meðal lögfræðinga. Svo virðist, bæði í þessari grein og sérstaklega þó í skýringum með henni, að menn séu að rugla saman eignarréttarhugtakinu og fullveldinu vegna þess að látið er að því liggja að með hugtakinu „þjóðareign“ sé verið að fjalla um eignarréttarlegt fyrirbæri sem sé eitthvað annað en ríkiseign. Við erum sem sagt komin með hugtak sem fer í flokk með einkaréttarlegum eignarrétti, ríkisréttarlegum eignarrétti og sköpum nú eitthvert nýtt fyrirbæri sem þjóðareignarhugtakið á að ná yfir. Í grunninn er þjóðareignarhugtakið ekkert annað en hugtak sem fjallar um fullveldisréttinn og felur í sér, eins og ég skil það, allt sem fram kemur í 2. mgr., nefnilega skylduna til að nýta náttúruauðlindirnar í landinu á sem hagkvæmastan hátt.

Í greinargerð með frumvarpinu segir síðan að ákvæðið hafi verið til umfjöllunar í stjórnarskrárnefndinni og vísað er í vinnuhóp nefndarinnar, sem ég sat í, og rifjað upp að í honum hafi orðið samstaða um að gera tillögu um stjórnarskrárákvæði sem tæki bæði til eignarhalds á auðlindum og nýtingu þeirra í ljósi tillagna auðlindanefndarinnar. Of langt mál er að fara yfir allt það efni sem farið er yfir í greinargerð með frumvarpinu en þar kemur fram að greinin eins og hún birtist í frumvarpinu sé efnislega samhljóða því sem rætt var um í vinnuhópnum. Það má til sanns vegar færa, enda var á þeim tíma stjórnarmeirihluti að störfum sem hafði ákvæði um sameign þjóðarinnar í stjórnarsáttmálanum, þ.e. ákvæði um að festa skyldi í stjórnarskrána að náttúruauðlindirnar væru sameign þjóðarinnar.

Vinnuhópur þessi lagði tillögu sína inn í stjórnarskrárnefndina, sem vannst aldrei tími til að fara nánar ofan í tillöguna en þó komu fram mjög skýrar kröfur um að öll lögfræðileg og hagfræðileg álitaefni á þeim vettvangi yrðu tekin til skoðunar áður en nefndin tæki málið til afgreiðslu, enda er augljóst að öll lögfræðileg og hagfræðileg álitaefni verða að koma til skoðunar þegar hreyft er við grundvallarréttindum á borð við þau sem við ræðum hér. Ekkert slíkt starf var unnið í vinnuhópnum og fráleitt að láta að því liggja að einhver djúpstæð vinna liggi að baki starfi vinnuhópsins. Í raun og veru var ekki um annað að ræða en vinnuhópurinn lagði til á grundvelli stjórnarsáttmálans og þeirrar vinnu sem áður hafði farið fram í auðlindanefndinni svonefndu að mál yrðu tekin til skoðunar á þeim grundvelli. Að öðru leyti höfðu vinnuhóparnir ekki annað hlutverk í stjórnarskrárnefndinni en að reyna að flýta fyrir og taka saman upplýsingar og til þeirra var stofnað á sínum tíma vegna þess að nefndarstarfinu þótti vinda of hægt fram.

Hér vil ég sem sagt koma að þeirri athugasemd að þjóðareignarhugtakið er gríðarlega umdeilt meðal lögfræðinga og vil setja allan fyrirvara á að slíkt hugtak sé fært inn í stjórnarskrána með þeim hætti sem hér er lagt upp með og vil alveg sérstaklega gera athugasemdir við umfjöllun í greinargerðinni þar sem fjallað er um mikilvægi þess að ákvæði af þessum toga sé í stjórnarskrá í tengslum við mögulega samninga okkar við Evrópusambandið. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að sú umfjöllun sem það snertir sé tóm vitleysa í greinargerðinni. Það er bara tóm vitleysa sem þar er haldið fram að ákvæði af þessum toga hafi einhverja þýðingu í mögulegum aðildarviðræðum okkar við Evrópusambandið.

Í annan stað er hægt að staldra við 2. mgr. 1. gr. þar sem segir að allar náttúruauðlindir beri að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar og til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Hvaða skyldu er þarna verið að leggja á stjórnvöld? Þýðir þetta til að mynda að okkur beri að stunda stórfelldar hvalveiðar við Ísland? (GAK: Ekki spurning.) Hér er kallað fram í af einum flutningsmanna að ljóst sé að okkur beri að stunda stórfelldar hvalveiðar í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunar og mér finnst athyglisvert að heyra það frá einum flutningsmanna að hann líti þannig á að þetta muni fella þær skyldur á stjórnvöld að fylgja í einu og öllu tillögum Hafrannsóknastofnunar um veiðar, til að mynda á stórhvelum. (Gripið fram í.)

Varðandi 3. mgr. 1. gr. í frumvarpinu hlýtur maður að velta því fyrir sér, hvað sem um Árósasamninginn má segja, hvaða þörf sé í raun og veru á því að færa efnisatriði sem tengjast honum inn í stjórnarskrá, inn í grundvallarlöggjöf okkar. Hvers vegna dugar ekki að hafa þau efnisatriði sem þar eru til umfjöllunar í almennri löggjöf? Og ég hef þá ekki tekið neina sérstaka afstöðu til þess sem þar er fjallað um, þ.e. sem snertir líffræðilega fjölbreytni og annað þess háttar. Ég tel að gild rök megi færa fyrir því og veit að réttarfarsnefnd hefur haft margar athugasemdir við fullgildingu samningsins. En væri ekki nær fyrir okkur á þinginu að taka fyrst til umfjöllunar þörfina fyrir fullgildingu samningsins áður en okkur dettur í hug að færa ákvæði af þessum toga beint inn í stjórnarskrána? Maður hefði ætlað það.

Ég vil koma aðeins að 2. gr. frumvarpsins sem snertir 79. gr. núverandi stjórnarskrár og tillaga er um að verði 81. gr. Ég ætla að segja þá skoðun mína að ég tel skynsamlegt að breyta 79. gr. Ég held að rétt sé að við reynum að sammælast um breytingar á henni vegna þess að það hefur sýnt sig í umræðum um breytingar á stjórnarskránni að mönnum virðist lítið vinnast í því verki framan af kjörtímabili og það er mest undir tímapressu undir lok kjörtímabils sem breytingar á stjórnarskránni koma til skoðunar. Við vitum hver ástæðan er, samkvæmt núgildandi skipulagi þarf að ganga til kosninga þegar breytingar hafa verið samþykktar á stjórnarskrá. Ég held að við eigum að taka umræður um breytingar á stjórnarskránni úr þeim farvegi. Við eigum að lyfta málinu upp úr þeim farvegi að þurfa ávallt að efna til kosninga og við eigum að taka upp þá reglu sem efnislega er rædd í 2. gr. frumvarpsins, sem sagt að heppilegra sé að við efnum til þjóðaratkvæðagreiðslu um breytinguna sem slíka. Þá vakna auðvitað spurningar um það hversu rúman stuðning breytingar á stjórnarskránni eiga að hljóta hjá þjóðinni og í grunninn get ég lýst mig samþykkan því að ávallt verði a.m.k. 25% allra kjósenda á kjörskrá að standa að baki slíkri samþykkt.

Hitt er síðan hvort við eigum að láta þetta nægja og styðjast ávallt eingöngu við einfaldan meiri hluta á þinginu. Þetta eru atriði sem þarf að taka til nánari skoðunar en í grunninn er ég fylgjandi því að við gerum breytingu af þessum toga og miðum við það í framtíðinni að breytingar á stjórnarskránni kalli ekki á kosningar. Þegar maður hugsar málið aðeins nánar væri kannski, þegar grannt er skoðað, ágætt að fella öll önnur ákvæði frumvarpsins út úr því og láta þessa grein standa eina eftir. Það væri dálítið í ætt við það sem stjórnarskrárnefndin lagði til á sínum tíma. Værum við ekki þá þegar komin með málið í þann búning að flestir ættu að geta vel við unað og komið öðrum efnisatriðum málsins til nánari skoðunar.

Ég verð að lýsa mig ósammála 3. gr. frumvarpsins. Ég átta mig hreinlega ekki á því hvað það er sem þrýstir svo mjög á um að við verðum við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu og án tafar að taka til skoðunar greinina um að 15% kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin lög eða málefni. Eitt er það að færa þjóðinni í hendur réttinn til að taka til endurskoðunar lög frá þinginu ef upp kynni að koma sú staða að þjóðin væri ósátt við löggjöf sem kæmi frá þinginu. Gott og vel. En að miða við 15% í því samhengi finnst mér algerlega fráleitt, enda er kosningaþátttaka á Íslandi almennt það góð og þingfulltrúar með slíkan meiri hluta þjóðarinnar að baki sér, að fráleitt er að efna til uppþots vegna löggjafar ef 15% kjósenda krefjast þess. En hitt er síðan að ganga út frá því að þetta hundraðshlutfall kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök málefni, mér er algerlega fyrirmunað að skilja hvaðan þessi hugmynd kemur og hvað liggur svo mjög á um að færa það ákvæði inn í stjórnarskrána fyrir kosningar og eigi síðar.

Stjórnlagaþingshugmyndin er síðan efni í sérstaka ræðu og reyndar flutti ég ræðu um það efni þegar Framsóknarflokkurinn tefldi fram þingmáli sínu um það efni fyrir fáeinum dögum eða vikum síðan. Ég minnist þess að í máli mínu þá spáði ég því að mál framsóknarmanna nyti ekki stuðnings ríkisstjórnarinnar og lesa mætti út úr fréttatilkynningum frá ríkisstjórninni að við gætum átt von á því að ríkisstjórnin kæmi með sína eigin hugmynd að stjórnlagaþingi. Hvað höfum við nú í höndunum? Jú, einmitt, aðra hugmynd um stjórnlagaþing frá ríkisstjórninni, sem átti ekki einu sinni hugmyndina í upphafi heldur starfar í umboði Framsóknarflokksins og tók hugmynd hans og gerði að sinni með smávægilegum breytingum, skar þetta niður. Síðan vill ríkisstjórnin ekki fjalla um kostnaðinn sem fylgir því að efna til stjórnlagaþingsins en reikningurinn verður kannski (Forseti hringir.) ekkert sérstaklega hár í þeirra augum, ekki nema um það bil 1–1½ milljarður.