136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eftirtektarvert og fróðlegt var að hlýða á ræðu hv. þingmanns. Hún var í reynd ein samfelld vörn fyrir þá staðreynd að hv. þingmaður var formaður starfshóps sem komst að niðurstöðu sem var lögð fram í frumvarpi ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.) Þetta hefur valdið hv. þingmanni og væntanlegum leiðtoga Sjálfstæðisflokksins erfiðleikum vegna þess að hann hefur það í farteskinu að hafa í reynd borið ábyrgð á því að vinna starfshóps, undirhóps stjórnarskrárnefndar, komst að þeirri niðurstöðu sem hér er lögð fyrir.

Ég get vel skilið að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins telji ekki rétt að fara í gagngera umdeilda endurskoðun á stjórnarskránni á þessu augnabliki en staðreyndin er sú að af þeim fjórum tillögum sem gert er ráð fyrir að verði að breytingum í stjórnarskránni, hafa þeir samþykkt þrjár og tekið þátt í að búa til tvær þeirra. Leiðtogaefni Sjálfstæðisflokksins ber efnislega og formlega ábyrgð á þeirri gerð sem hér er að finna varðandi þjóðareignina. Svo getur hann komið og eytt öllum tíma sínum í að verja sig sem leiðtogaefni gagnvart flokknum vegna þess að hann er kominn í andstöðu við flokk sem greinilega er á móti þessu en hann samþykkti það. Í öðru lagi samþykktu hann og hv. þm. Birgir Ármannsson, ásamt fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, það frumvarp sem lagt var fyrir þingið og tekið upp um hvernig eigi að breyta stjórnarskránni. (Gripið fram í.) Í þriðja lagi hafa allir helstu forustumenn Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal sá sem hv. þm. Bjarni Ben. er í keppni við um leiðtogasætið í Suðvesturkjördæminu, lýst yfir stuðningi við þjóðaratkvæði. Þetta er kannski angi af átökum hv. þingmanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins sem hér brýst fram. Hann lýsir sig mótfallinn því. Hún lýsti sig tvisvar (Forseti hringir.) samþykka því í ræðu á Alþingi fyrir nákvæmlega fjórum vikum. (Gripið fram í.)

(Forseti (KHG): Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra er kunnugt um að þingmaðurinn heitir Bjarni Benediktsson.)