136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að tilkynna þinginu að það er rangt hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að ég hafi setið fyrir framan tölvu mína að blogga um Sjálfstæðisflokkinn í kvöld. Ég var að lesa skýrslu sem verður kynnt fyrir utanríkismálanefnd á morgun, áhættumatsskýrslu fyrir Ísland, það var það sem ég var að gera.

Um það sem hv. þm. Birgir Ármannsson segir, bólginn af bræði í ræðustól, hef ég bara það eitt að segja: Hv. þm. Birgir Ármannsson og félagar hans í Sjálfstæðisflokknum hafa komið í veg fyrir það með barnalegu og kjánalegu málþófi, eins og t.d. í gær þar sem þeir beittu alveg splunkunýrri tækni með því að fara í andsvör við sjálfa sig, sem aldrei hefur sést hér í sölum, og komu þannig í veg fyrir að við hefðum hugsanlega verið komin með Helguvíkurmálið í nefnd, væntanlega til þess að afgreiða (Gripið fram í.) það eins faglega, vel og hratt og hægt væri. Ég veit að það er andstætt vilja hv. þm. Marðar Árnasonar og örugglega hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, en ég hélt að við værum sammála um það, ég og þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Staðreyndin er þessi: Þeir haga sér hérna eins og kjánar og þeir eru í reynd finnst mér, án þess að þeir geri sér grein fyrir því, að vinna gegn (Forseti hringir.) hagsmunum fólks í samfélaginu (Forseti hringir.) með þessari barnalegu háttsemi. (Gripið fram í: Ráðherrann svarar engu.) Ég hef sagt það við hv. þingmann að það kemur ekki til greina að ég biðjist (Forseti hringir.) afsökunar á einu eða neinu. Allt sem ég sagði er rétt.