136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:20]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Nú verður Sjálfstæðisflokknum allt að umræðuefni aldrei þessu vant. Það er vegna þess að hann hefur nú lagt af þá nýjung sem hann tók upp í gær að fara í andsvör við sjálfan sig. Sjálfsandsvörin stóðu mjög stutt, þau stóðu bara í gærkvöldi og síðan þegar þjóðin fór að hlæja að Sjálfstæðisflokknum í dag og hefur hlegið í allan dag að því að Birgir Ármannsson var í andsvari við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson og hv. þm. Jón Magnússon fór í andsvar við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir og að menn færu svo í andsvör hver við annan. (Gripið fram í: Allt rangt.) (Gripið fram í: Hv. þingmaður var ...) (JM: ... andsvörum við Þorgerði Katrínu.)

Forseti. Ég verð að biðjast afsökunar, það var ekki hv. þm. Jón Magnússon sem fór í andsvar við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur heldur var það Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem fór í andsvar við Jón Magnússon. (Gripið fram í: Nei, nei.) (ÞKG: Nei.) (Gripið fram í: Nei.) Ég biðst afsökunar á þessu, forseti, (ÞKG: Lygin er þér töm.) og ég verð augljóslega að koma hér aftur til að geta farið með rétt mál um sjálfsandsvör sjálfstæðismanna, (Gripið fram í.) en þeim er nú lokið og er tekið til við næsta lið í endurreisnarprógramminu sem er að ræða um bloggsíðu Össurar Skarphéðinssonar, hæstv. utanríkisráðherra. (Forseti hringir.) Til hamingju, sjálfstæðismenn, með þennan mikla áfanga. (Gripið fram í: Fleipur.)