136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Geirs H. Haarde. Við höfum rætt mikið um lýðræðisskipulagið í samfélaginu á þessum vetri og það er eðlilegt. Við sjálfstæðismenn teljum að fara eigi yfir ákveðna þætti stjórnarskrárinnar og við erum meira en reiðubúin til að fara yfir ákveðna þætti til að breyta þeim. Við erum hins vegar á móti því að stjórnarskráin sé eins og eitthvert plagg sem breyta megi korteri fyrir kosningar, plagg sem er algjörlega órætt. Það sem við erum að ræða hefur ekki verið rætt á milli stjórnmálaflokkanna og það er ekki síður órætt úti í samfélaginu. Það er verið að breyta vinnubrögðunum.

Margt er hægt að segja um vinnubrögð síðustu vikna og missira. Það er hægt að gagnrýna þau. Þó má segja að þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið varðandi breytingu á stjórnarskránni í gegnum tíðina, síðustu breytingar 1991, 1995 og 1999 — sátt og samkomulag á milli stjórnarflokka sýnir fram á að hægt er að ná fram raunhæfum samkomulagsbreytingum á stjórnarskrá.

Væri það ekki mun gæfulegra í dag á þessum óvissutímum að allir stjórnmálaflokkarnir hefðu tekið sig saman og lagt fram sameiginlegt frumvarp sem varðar stjórnarskipunarlögin? Ég hefði kosið að sjá það, og ekki síður þegar fyrir liggur, m.a. af hálfu eins nefndarmanns í stjórnarskipunarnefnd, að ekki hefði tekið nema nokkra mánuði til viðbótar við þá vinnu sem nú þegar hefur verið unnin að klára slíkar breytingar. Af hverju var ekki vandað betur til verksins? Af hverju þetta óðagot? Eða er þetta eitthvert kosningaplagg? Plagg sem þarf að fylla upp í korteri fyrir kosningar hjá Samfylkingu og Vinstri grænum?

Það er eftirtektarvert, herra forseti, að hér við umræðuna hefur enginn þingmanna Vinstri grænna haldið ræðu eða komið upp í andsvörum, enginn haft skoðanir á frumvarpinu. Tveir þingmenn Samfylkingarinnar hafa komið hingað upp og tjáð sig í þessu grundvallarmáli, máli sem þarf að þrýsta í gegnum þingið sama hvað tautar og raular. Hvers konar vinnubrögð eru þetta, herra forseti? Og þetta eru sömu flokkarnir og hafa í áraraðir talað um mikilvægi stjórnarskrárinnar, þ.e. að vanda verði til verka. Svo allt í einu hafa menn ekki skoðanir á því þegar við erum að ræða stjórnarskrána. Hvað hefur hlaupið í fólk sem alla jafna hefur miklar skoðanir á hlutum?

Hér fyrr í dag var athyglisverð umræða, m.a. um ESB. Þar kom fram af hálfu ýmissa þingmanna, og ég fagna því, að menn vilji ná sátt á milli flokkanna um það eftir hvaða leiðum við eigum að nálgast umræðuna um aðild að Evrópusambandinu, að sátt náist á milli flokkanna um að ná hugsanlegri aðild að Evrópusambandinu, og því fögnuðu menn hér. Gefum okkur að allir stjórnmálaflokkar á þingi nái samkomulagi um að sækja um aðild að Evrópusambandinu gegn ákveðnum skilyrðum. Þá er með þeim tillögum sem hér er verið að boða verið að koma í veg fyrir að slíkt samkomulag nái fram að ganga. Auðlindaákvæðið eins og það liggur fyrir — og það sjónarmið hefur líka komið fram í stjórnarskipunarnefndinni — mun koma í veg fyrir að þingið geti ákveðið að sækja um aðild að ESB. Samfylkingin er með þessu ákvæði, eins og það er sett fram, að koma í veg fyrir að sótt verði um aðild að ESB þó að stjórnmálaflokkarnir komi sér saman um það, sem menn fögnuðu hér fyrr í dag.

Það er ekki bara það að þessi óvissa birtist í frumvarpinu heldur er það líka, svo að vægt sé til orða tekið, mjög loðið. Af hverju segi ég að auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar sé loðið? Þegar hlustað var á ræðu hæstv. forsætisráðherra í gær, sem er flutningsmaður að frumvarpinu, og síðan annarra flutningsmanna, eins og hv. þingmanna Guðjóns Arnars Kristjánssonar og Helga Hjörvars, þá voru skiptar skoðanir um það hvað þetta þýddi. Hæstv. forsætisráðherra sagði: Þetta mun engar breytingar hafa á fiskveiðistjórnarkerfinu. Svo kemur hv. þm. Helgi Hjörvar hingað upp og segir að þetta sé grundvallaratriði í því að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu og það sama segir formaður Frjálslynda flokksins. Ég bið um að óvissu sé eytt, ekki að aukið sé á óvissu með því að leggja fram svona frumvarp um stjórnarskipunarlögin.

Það er mikil réttaróvissa og það kemur fram í máli flutningsmanna. Ég vil að þetta sé skýrt. Mun þetta breyta fiskveiðistjórnarfyrirkomulaginu eða ekki? Vill 1. flutningsmaður útskýra það og vill 4. flutningsmaður frumvarpsins vinsamlegast útskýra það fyrir mér og þingheimi.

Stjórnlagaþingið hefur verið margrætt. Lýðræði kostar sitt, sagði forsætisráðherra hér í gær. Lýðræði kostar sitt, það er rétt. Ég hefði að sjálfsögðu viljað sjá það lýðræði í verki með aukinni samstöðu, samráði og samvinnu stjórnmálaflokkanna hér á þingi. Það var ekki virt en gott og vel, við tökum öll undir það að lýðræði kostar sitt. Við ætlum að standa vörð um það að lýðræðið fái áfram framgang í okkar góða samfélagi.

En þetta lýðræðisframtak stjórnarflokkanna, stjórnlagaþingið, kostar sitt, það kostar einn og hálfan milljarð. Ekki á að hækka skatta, það hefur komið fram, og ekki á að taka erlend lán, það hefur líka komið fram, en engin önnur svör. Við skulum setja þetta í samhengi við þann bitra veruleika sem við stöndum frammi fyrir varðandi ríkisfjármálin. Við þurfum að hagræða og svona forgangsraðar ríkisstjórnin. Hvað þýðir einn þingmaður á stjórnlagaþinginu? Einn þingmaður á stjórnlagaþinginu kostar það sama og einn læknir á Landspítalanum. Við erum að tala um 41 lækni, 41 þingmaður á stjórnlagaþinginu þýðir 41 störf á Landspítala fyrir okkar velmenntuðu lækna. Aðstoðarmenn þingmanna 41 stykki, 41 hjúkrunarfræðingur á Landspítala. Sjá menn ekki samhengið í hlutunum hér? Við þurfum að forgangsraða, fyrir utan alla ritara og fleira.

Við þurfum að setja þetta í samhengi sem við þau mál sem við þurfum að taka á í dag. Ég segi: Forgangsröðum í þágu atvinnumála, forgangsröðum í þágu efnahagsmála og náum sátt og samkomulagi um breytingar á stjórnarskránni. (Gripið fram í: Af hverju s …) Það skiptir máli að ná samkomulagi um stjórnarskrána sem hér er til umræðu og við (Gripið fram í.) sjálfstæðismenn erum tilbúin til að ná samkomulagi um breytingar á stjórnarskránni. (Gripið fram í.) Sem dæmi — það skal bara láta á það reyna. Það var ekki fullreynt og það eru ósannindi að halda því fram núna á síðustu metrunum. Það var aldrei fullreynt og það er lygi að tala þannig.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson hefur sett það fram að við sjálfstæðismenn erum reiðubúin til að samþykkja það sem lá fyrir varðandi það hvernig við breytum stjórnarskránni. Förum í það. Takið í okkar útréttu sáttarhönd þannig að þingið geti haldið áfram að fjalla um þau mál sem vega þungt sem eru efnahags- og atvinnumálin. Ég spyr líka, þó að skiptar skoðanir séu um það: Af hverju bætum við ekki inn öðru ákvæði, sem Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin gætu eflaust sammælst um? Ég veit ekki um skoðanir Vinstri grænna því að þeir hafa ekki tjáð sig í þessu máli.

Ég get vel hugsað mér að inn komi ákvæði í stjórnarskrána sem snertir fullveldið. Ef samningur sem snertir fullveldi okkar, eins og EES-samningurinn á sínum tíma, (Forseti hringir.) hefur verið samþykktur þá á umsvifalaust að bera hann fyrir þjóðina. Af hverju setjum við ekki slíkt ákvæði inn (Forseti hringir.) og sammælumst um það? Við viljum ná samkomulagi um breytingar á stjórnarskránni. Hún er merkilegri en svo að búið verði til eitthvert kosningaplagg fyrir vinstri flokkana.