136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

405. mál
[13:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis sem samið er á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytis að fenginni umsögn landskjörstjórnar.

Hinn 5. þessa mánaðar tóku gildi breytingar á kosningalögunum þar sem kveðið er á um að íslenskir ríkisborgarar sem búsettir hafa verið erlendis lengur en átta ár en sóttu ekki um að verða teknir á kjörskrá fyrir 1. desember 2008 geti sótt um að verða teknir á kjörskrá í síðasta lagi til og með 25. mars nk.

Verði gengið til kosninga 25. apríl nk. mun viðmiðunardagur kjörskrár að óbreyttum lögum verða 21. mars, þ.e. fimm vikum fyrir kjördag. Þá verður ekki liðinn fyrrgreindur umsóknarfrestur íslenskra ríkisborgara sem búsettir hafa verið erlendis lengur en átta ár. Til að tryggja að þeir verði komnir á kjörskrá fyrir viðmiðunardag kjörskrárinnar er óhjákvæmilegt að færa þann dag eina viku nær kjördegi.

Þá skal landskjörstjórn miða við íbúaskrá þjóðskrár á sama tímamarki þegar mörk kjördæmanna í Reykjavík eru ákveðin og er því lagt til að þessi viðmiðunartími styttist um viku, úr fimm vikum í fjórar.

Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna ber landskjörstjórn að auglýsa mörk kjördæmanna í Reykjavík eigi síðar en viku eftir að íbúaskrá þjóðskrár hefur verið „fryst“ eða fjórum vikum fyrir kjördag. Í ljósi þess að þessi viðmiðunartími færist nær kjördegi verður að stytta þennan frest til samræmis og verður hann þrjár vikur í stað fjögurra.

Til samræmis við styttingu þess tíma sem gefst til að vinna kjörskrárstofna samkvæmt framangreindu og leggja þá fyrir sveitarstjórnir er hér lagt til að sá frestur sem kjósendum gefst til að kynna sér kjörskrána verði styttur úr tíu dögum í átta.

Þá mun framboðsfrestur að óbreyttu renna út kl. 12 á föstudaginn langa. Er því lagt til að þessi frestur færist fjórum dögum nær kjördegi. Vegna þessa færist frestur landskjörstjórnar til að birta auglýsingar um framboð fimm dögum nær kjördegi.

Þá eru jafnframt eru lagðar til nokkrar minni háttar breytingar á lögunum sem fela ekki í sér efnislegar breytingar heldur miða að því að skýra ýmis atriði eða lagfæra.

Er lagt til að fellt verði úr 4. gr. laganna að umboðsmaður Alþingis sé ekki kjörgengur til Alþingis. Er þetta lagt til þar sem í stjórnarskránni er einungis getið um að hæstaréttardómarar séu ekki kjörgengir. Hins vegar kemur fram í lögum um umboðsmann Alþingis að hann megi ekki jafnframt vera alþingismaður.

Þá er lögð til lagfæring á heitum sveitarfélaga í 6. gr. laganna vegna sameiningar sveitarfélaga.

Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein sem lýsi því með hvaða hætti sá útreikningur sem lýst er í greininni um tilfærslu kjördæmissæta milli kjördæma fer fram. Ekki er um efnislega breytingu að ræða.

Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að hverfis- eða yfirkjörstjórnir á þeim stöðum sem kjördeildir eru fleiri en ein verði framvegis kallaðar hverfiskjörstjórnir svo ekki skapist hætta á að þeim sé ruglað saman við yfirkjörstjórnir samkvæmt öðrum greinum laganna.

Sú breyting sem lögð er til í 5. gr. frumvarpsins er eingöngu til skýringar.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.