136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[13:48]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það sneyðist nú mjög um þann tíma sem ætlaður er til fundarhalda á hv. Alþingi í dag. Mig langar aðeins að víkja að því að ég tel að þetta sé eitt mikilvægasta frumvarpið sem fram hefur komið frá ríkisstjórninni á þessu vori. Ég vil minna á að með því er einungis stigið fyrra skrefið af tveimur. Upphaflegu frumvarpi var ætlað að taka til greiðsluaðlögunar skulda almennt en aðeins að hluta til greiðsluaðlögunar veðskulda.

Eins og komið hefur fram þótti sú aðferð að takmarka greiðsluaðlögun veðkrafna, veðskulda, við veðskuldir sem væru í eigu ríkisbankanna eða Íbúðalánasjóðs hvorki ganga nógu langt, miðað við þær þarfir sem uppi eru í samfélaginu í dag, né heldur standast jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þar var ekki um að ræða spurningar um eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, hv. þm. Eygló Harðardóttir, heldur jafnræðisregluna. Þeir sem skulduðu sparisjóðum hefðu ekki getað fengið greiðsluaðlögun veðkrafna og þar með niðurfellingu eftirstöðva heldur einungis þeir sem ættu skuldir hjá ríkissjóði.

Innleiðing greiðsluaðlögunar er mjög mikilvægt skref og þetta er úrræði sem er þekkt í norrænum rétti og þar er mjög löng og farsæl reynsla af þessu úrræði. Ég vil ítreka að þar sem úrræðið hefur verið í lögum, eins og í Noregi, frá því 1996 frekar en 1992, hefur aldrei reynt á að það brjóti eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og þau eru nákvæmlega eins og úr garði gerð og lögin okkar.

Undir hitt get ég tekið að það er alveg hreint með ólíkindum að eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar virðast, alla vega í orði kveðnu þegar menn ræða þau mál, alltaf vera til þess eins fallin að verja eignir kröfuhafa en ekki eignir sem menn eiga nú í húsnæðinu sína. Þær eignir fara minnkandi miðað við hlut kröfuhafa dag frá degi eftir því sem gengið hækkar á gengistryggðu lánunum eða eftir því sem verðbótaþátturinn vex með vaxandi verðbólgu.

Kallað hefur verið eftir því árum saman að lög um greiðsluaðlögun verði sett í íslenskan rétt og nú eru þau sett við mjög erfiðar aðstæður. Nýr hópur skuldara kemur nú inn á sviðið, fólk sem aldrei hefur verið í vanskilum og getur ekki í því ástandi sem er í samfélaginu staðið í skilum vegna aðstæðna sem þeir eiga mjög lítinn hlut í, ef þá nokkurn. Lán hafa vaxið langt umfram markaðsverð bíla og íbúðarhúsnæðis. Menn geta ekki selt og sitja fastir í skuldafangelsi. Þeir hafa hins vegar yfirleitt greiðsluvilja og margir hverjir greiðslugetu og það er til þess sem þetta úrræði er ætlað og af því er allra hagur, eins og hér hefur verið bent á.

Úrræði af þessum toga hefur mikla þýðingu við þær efnahagsaðstæður sem við búum nú við. Fordæmi frá öðrum löndum sem hafa lent í erfiðri efnahagskreppu benda til þess að ef margir verða gjaldþrota fylgi því mikil hætta á margháttuðum neikvæðum félagslegum afleiðingum, m.a. sú hætta að úr efnahagskreppu þróist djúp félagsleg kreppa.

Bráðabirgðaákvæðið sem upphaflega var að finna í frumvarpinu, og ég nefndi hér áðan, takmarkaðist við veðkröfur í eigu ríkisbanka og Íbúðalánasjóðs. Gerðar voru gríðarlega miklar athugasemdir við þetta, bæði af gestum sem komu á fund nefndarinnar og í álitum sem lögð voru fyrir nefndina. Að undirlagi nefndarinnar, eins og hér hefur verið lýst, hefur nú verið samið nýtt frumvarp sem tekur til allra veðkrafna og það frumvarp, eins og kemur fram í nefndaráliti á þskj. 710, mun verða flutt af hv. allsherjarnefnd. Ég á von á því að nefndin gangi frá því á næsta fundi sínum sem verður á mánudaginn kemur.

Mig langar aðeins að nefna eitt atriði til viðbótar því að tíminn er hlaupinn frá okkur. Ákveðið hefur verið að taka málið inn til nefndar á milli umræðna til þess að athuga það sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks í nefndinni gera fyrirvara við, þ.e. hvernig framkvæmdinni verður háttað þegar þetta verkefni, greiðsluaðlögunin, verður komin inn á borð sýslumanna, sýslumannsembætta eða sýslumannsembættis, eins og meiri hluti nefndarinnar gerir tillögu um að verði gert í breytingartillögu sem er að finna á sama þingskjali.

Ég vek athygli á því að fram kom í nefndarstarfinu að þær tölur sem er að finna í greinargerð með upphaflega frumvarpinu eru gríðarlegar lágar og þær eru alls ekki raunhæfar þar sem gert er ráð fyrir að þetta úrræði muni nýtast alls 100–200 manns. Í nefndinni er talið að um sé tíföldun að ræða, 1.000–2.000 manns, og þá er ljóst, miðað við þær tölur sem hér eru, að þetta er gríðarlega kostnaðarsamt og mundi að óbreyttu geta verið einhvers staðar á bilinu 500 milljónir upp í 1 og jafnvel 1,5 milljarðar kr. ef þetta færi út á hinn frjálsa lögfræðingamarkað. Því er til sparnaðar lagt til að þetta fari til sýslumannsembætta eða -embættis.

Ég tel það mjög mikilvægt mál, ekki aðeins peninganna vegna heldur einnig vegna þess að með því er hægt að tryggja tiltekið jafnræði. Þannig er hægt að tryggja að allir sitji við sama borð. Það er líka hægt að tryggja skilvirkni með því að sýslumenn geta byrjað strax, þess vegna á morgun, að vinna að þessu máli. Með því er líka sköpuð ákveðin festa og öryggi í kringum þetta úrræði, bæði fyrir kröfuhafa og skuldara, því að sýslumannsembættin verða áfram til staðar. Þessu úrræði er ætlað að gilda um nokkurra ára skeið. Lögmenn geta komið og farið en sýslumannsembættin „blífa“ og hafa gert um hundruð ára. Það eru því margar röksemdir sem fyrir þessu eru en málið verður athugað vandlega á milli umræða.

Herra forseti. Tíminn er hlaupinn frá mér en ég treysti því að þetta mál muni hljóta skjóta afgreiðslu og jafnframt að veðlánagreiðsluaðlögunin fái mjög skjóta afgreiðslu í gegnum þingið.