136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

heimsókn fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[15:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er kannski rétt að vekja athygli á því til viðbótar að eitt af því sem tók talsverðan tíma í samskiptum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á þeim hálfa mánuði sem hann var hér var að fara yfir aðgerðir núverandi ríkisstjórnar og sannfæra Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um ágæti þeirra. Það gekk vel og tókst að lokum að fá í öllum aðalatriðum skilning á því að þær aðgerðir sem við værum að grípa til væru skynsamlegar og nauðsynlegar. Til dæmis féllst Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á þá ráðstöfun tekna ríkisins sem koma með útgreiðslu séreignarsparnaðar, að þeim verði að hluta til varið hækkunar vaxtabóta. Þannig kom það á daginn að það var hægt að ræða við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um framvindu þessarar áætlunar, að hún væri dínamísk og það væri hægt að gera þar breytingar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn féllst á þegar málið var rökstutt og útskýrt.

Hins vegar vil ég biðja hv. þm. Geir H. Haarde sem og aðra viðstadda að hafa hóf á bjartsýni sinni því það er ekki svo, því miður, að allir hlutir hafi endilega þróast með jákvæðum hætti. Það hefur þegar komið fram að t.d. eru atvinnuleysishorfur verri en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerði ráð fyrir. (Forseti hringir.) Það setti strik í reikninginn og sömuleiðis hefur staðið yfir ákveðið endurmat á heildarskuldum þjóðarbúsins sem ekki er að þróast í jákvæða átt.