136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

Fjármálaeftirlitið og bankarannsókn.

[15:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir þessi svör. Ég vil samt ítreka að hver dagur er dýrmætur í þessu samhengi. Mér finnst það í raun ekki boðlegt hvað það hefur dregist að Fjármálaeftirlitið meira að segja svari sérstökum saksóknara með rökstuðningi fyrir afstöðu sinni.

Ég tel að Fjármálaeftirlitið eigi ekki að grisja það sem fer úr þessum skýrslum til sérstaks saksóknara. Það á ekki að gera það. Sérstakur saksóknari á að gera það sjálfur, hann á að fá öll þessi gögn í hendurnar til rannsóknar og það er hans að meta hvað hefur gildi og vægi fyrir þá rannsókn sem hann innir af hendi og hvað ekki.

Ég ítreka því við hæstv. viðskiptaráðherra hvort hann sé ekki sammála því að það sé mikilvægt að sérstakur saksóknari fái allt til sín, öll gögn, óritskoðuð og ógrisjuð af hálfu Fjármálaeftirlitsins og hann geti síðan tekið ákvörðun um hitt.

Hitt er svo annað mál að það er fínt að þetta frumvarp dómsmálaráðherra (Forseti hringir.) er í meðförum en við eigum ekki að bíða eftir því, að mínu mati.