136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

kostnaður við stjórnlagaþing.

[13:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið til að vekja athygli á upplýsingum sem komu fram í sérnefnd um stjórnarskipunarmál í gær. Við 1. umr. um frumvarp til stjórnarskipunarlaga var spurt um kostnað við stjórnlagaþing, sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, og svör fjármálaráðuneytisins komu fyrir nefndina í gær. Til að gera langa sögu stutta er, miðað við þær forsendur sem fjármálaráðuneytið gefur sér, gert ráð fyrir að heildarkostnaður verði 1.176,5 millj. kr. standi þinghald í 10 mánuði. Ef þinghald stendur í 18 mánuði, eins og gert er ráð fyrir sem meginreglu í frumvarpinu, verður kostnaðurinn 1.731,6 millj. kr. og ef þinghald stendur í 24 mánuði, eins og heimilt er samkvæmt frumvarpinu, verður kostnaðurinn 2.148 millj. kr.

Þetta eru talsvert háar tölur og raunar töluvert hærri en ég gerði ráð fyrir. Þegar málið var til 1. umr. reyndum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins örlítið að átta okkur á kostnaðinum og ég sló á það með mjög frumstæðum aðferðum að kostnaðurinn gæti verið 1,2–1,5 milljarðar kr. en þessar tölur virðast vera töluvert hærri. Ég vil af þessu tilefni spyrja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformann Samfylkingarinnar, hvort þessar upplýsingar eða upplýsingar í þessa veru hafi legið fyrir þegar þingflokkur Samfylkingarinnar samþykkti framlagningu frumvarpsins, hvort hann telji að upplýsingarnar hefðu breytt einhverju um samþykktina og hvort hann telji að þessi kostnaður sé (Forseti hringir.) réttlætanlegur.