136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[18:28]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir andsvarið. Ef málið væri svo einfalt að sjúklingarnir væru þrír, hjálparmennirnir þrír og áhorfendurnir fimm þá værum við ekki að ræða þessa hluti hér og nú. Við erum að tala um tugþúsundir heimila og fyrirtækja í landinu sem eru við það að fara á hausinn og ég held að hv. þingmaður viti það sjálfur að kerfið ræður ekkert við að afgreiða hvert og eitt slíkt mál.

Hv. þingmaður talaði líka um það sem ég minntist á í ræðu minni, að ástæðan fyrir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði ekki greitt út annan hluta lánsins væri sú að skuldastaða ríkissjóðs væri óörugg. Hún kemur þessu máli ekkert við og hv. þingmaður veit það líka. Það sem byggt er á í þessum tillögum er einfaldlega það að búið er að afskrifa þessi lán. Lánasöfnin voru tekin yfir í nýju bankana, með allt að 50% afskriftum. Það liggur reyndar ekki fyrir endanleg tala í því, en allt að 50% afskriftum og þar sem búið er að afskrifa lánin um helming, þá ætti að vera borð fyrir báru vegna þess að nýju bankarnir græða heldur ekkert á því ef fólk hættir að borga af lánunum sínum vegna þess að það hefur einfaldlega ekkert upp á sig.

Hvenær þessar tillögur eiga að taka gildi, með 20% niðurfellinguna, hv. þm. Pétur Blöndal vildi fræðast um það. Ég held að það hljóti að geta orðið samningsatriði á milli mín og hans, ef hann styður þessar tillögur. Ég mundi halda að hrunið væri sá tímapunktur sem við horfum til.