136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[18:36]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er brýnt að þetta mál fari hið fyrsta til nefndar þannig að aðilar í samfélaginu geti komið með ábendingar, stuðning eða jafnvel andstöðu, við þær tillögur sem við höfum hér lagt fram. Ég legg mikla áherslu á að þetta mál klárist í kvöld.

Bón mín til hæstv. forseta var sú að þingmönnum yrði gerð grein fyrir því að hér fer fram mjög alvarleg umræða um málefni heimila og fyrirtækja. Þegar fjöldagjaldþrot fyrirtækja blasa við og fólk er unnvörpum að missa húsin sín sýna þingmenn ekki þá lágmarksvirðingu að senda fulltrúa þingflokka sinna til umræðunnar.

Þetta er óboðlegt. Þetta er vanvirðing við vanda heimila og fyrirtækja. Ég fer fram á það við hæstv. forseta að hann geri fulltrúum og formönnum þingflokka sem sæti eiga hér á Alþingi grein fyrir því að þessi mikilvæga umræða eigi sér hér stað og að við framsóknarmenn gerum þá kröfu að fulltrúar allra þingflokka komi að henni.

Það er ekki eins og ástandið úti í samfélaginu sé eðlilegt. Það hefur orðið hrun og við þurfum að ræða þessi mál. Við þurfum að ræða þær tillögur (Forseti hringir.) sem við framsóknarmenn höfum lagt hér fram til þess að koma til (Forseti hringir.) móts við vanda heimila og fyrirtækja.