136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[19:17]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Herra forseti. Ég vil í upphafi annarrar ræðu minnar í kvöld lýsa yfir miklum vonbrigðum með þá staðreynd að hér skuli enginn stjórnarliði vera á mælendaskrá, enginn samfylkingarmaður, enginn þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Reyndar nefndi hv. þm. Jón Bjarnason það við mig áður en umræðan hófst að hann kæmi hugsanlega í hana en hann nefndi ekki hvort fleiri væru væntanlegir í umræðu um bráðavanda heimila og fyrirtækja í landinu. Mér finnst það ekki ofrausn þótt einn þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sé væntanlegur á mælendaskrá til að ræða þann mikla vanda sem blasir við okkur öllum. Það er vanvirðing við ástandið sem nú er í íslensku samfélagi að eins fáir þingmenn séu viðstaddir þessa umræðu og raun ber vitni. Það er hárrétt sem kom fram í skoðanaskiptum hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal og Magnúsi Stefánssyni að manni finnst undarlegt að hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna skuli ekki vera í hópum á mælendaskrá til að ræða þær tillögur sem við framsóknarmenn höfum lagt fram og sérstaklega hafa þingmenn Samfylkingarinnar lagt sig fram við að gagnrýna á öllum öðrum vígstöðvum en hér á Alþingi.

Við sem höfum lagt fram heildstæðar tillögur um málefni heimilanna og fyrirtækjanna og hvernig við ætlum að koma til móts við þau hljótum að eiga rétt á því að geta skipst á skoðunum við hv. þingmenn sem hafa gagnrýnt, stundum með órökstuddum hætti, þær tillögur sem við höfum lagt fram.

Herra forseti. Hvernig má það vera, að aflokinni margra vikna vinnu sérfræðinga og aðila í íslensku atvinnulífi sem komu að því að móta þá tillögu til þingsályktunar sem við ræðum hér, að hæstv. forsætisráðherra þurfti aðeins nokkrar mínútur til að slá þær hugmyndir út af borðinu? Hvernig stendur á því að það var gert? Getur það verið af því að hugmyndir okkar eru ekki runnar úr ranni Samfylkingarinnar? Er það þannig — og eru það ekki stjórnmálin sem við ætluðum að yfirgefa — að ef andstæðingurinn kemur fram með einhverjar hugmyndir séu þær fyrir fram vonlausar? Þetta er eitthvað sem við þurfum að snúa við, stjórnmál sem við þurfum að yfirgefa og í raun og veru sögðum við framsóknarmenn þegar við studdum þessa minnihlutaríkisstjórn og lofuðum því að verja hana vantrausti að við mundum styðja öll góð mál, sama hvort þau kæmu frá stjórn eða stjórnarandstöðu. Við mundum sjálf, ef okkur þættu tillögur og aðgerðir ríkisstjórnarinnar ekki nægilegar, leggja fram okkar eigin tillögur. Þær höfum við lagt fram hér. Það hlýtur því að vera lágmarkskrafa, herra forseti, að fulltrúar ríkisstjórnarinnar mæti í umræðuna og greini frá afstöðu flokka sinna til efnahagstillagna Framsóknarflokksins sem þeir hafa margir hverjir verið svo duglegir við að gagnrýna. Reyndar er það svo, eins og hv. þm. Helga Sigrún Harðardóttir nefndi, að vaxandi stuðningur er í samfélaginu og hjá hagfræðingum innan lands og erlendis við þær hugmyndir okkar framsóknarmanna að við þær sérstöku aðstæður sem blasa við í íslensku samfélagi í dag sé þörf á róttækum aðgerðum. Okkur hv. þm. Pétur H. Blöndal greinir á um hversu róttækar þær eigi að vera, það er einfaldlega þannig, en hv. þingmaður er þó maður að meiri að mæta í umræðuna og skiptast á skoðunum við þingmenn Framsóknarflokksins um þann bráða vanda sem steðjar að íslensku atvinnulífi og íslenskum heimilum.

Þegar maður ræðir um brennandi mál — maður heyrir frá fólki og forsvarsmönnum í íslensku atvinnulífi sem margir eru á barmi örvæntingar í dag — er undarlegt að verða vitni að því að þegar Framsóknarflokkurinn leggur fram tillögur sínar í efnahagsmálum skuli ekki nokkur einasti þingmaður Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vera kominn á mælendaskrá. En ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan að ég á von á hv. þingflokksformanni Vinstri grænna, Jóni Bjarnasyni, í umræðuna og ég vona að hann komi.

Hæstv. forseti. Mér finnst ákveðinn grundvallarmisskilningur liggja í orðum hv. þm. Péturs H. Blöndals þegar kemur að þeirri hugmyndafræði okkar að færa niður skuldir íslenskra heimila sem samsvarar verðbólgu síðustu 18 mánaða. Nýju bankarnir fengu lánasöfn gömlu bankanna með verulegum afslætti. Það er því ekki ríkið sem tapar á skuldaniðurfærslunni heldur erlendu kröfuhafarnir og það er ekki spurning hvort þeir tapi 50% heldur er jafnvel hætta á að þeir tapi 90%, jafnvel öllu ef allt fer á versta veg. Ef við verðum svo lánsöm að hafa stjórnvöld og ríkisstjórn sem hefðu þann metnað og þann dug að sannfæra erlendu kröfuhafana um að ef ráðist yrði í þann heildarpakka sem við framsóknarmenn höfum lagt fram, sé verið að bæta eignasafn erlendu kröfuhafanna, og þeir fái, þegar öllu er á botninn hvolft, meira vegna þessara fyrirbyggjandi aðgerða. Eins og hv. þm. Helga Sigrún Harðardóttir benti á áðan verður snjóflóðið ekki stoppað í miðri hlíð þegar það er komið af stað. Mér finnst vanta skilning hjá fulltrúum annarra stjórnmálaflokka á því að mögulega geti hlutirnir farið illa hér á landi og við skulum ekki loka augunum fyrir því og það er ábyrgðarhluti ef menn ætla ekki að horfast í augu við raunveruleikann. Er þá ekki betra, hæstv. forseti, að menn hafi ráðist í einhverjar fyrirbyggjandi aðgerðir til að forðast slíkt? Þegar menn spyrja hvað aðgerðirnar kosti, spyr ég á móti: Hver er ávinningurinn fyrir íslensk heimili og íslenskt samfélag að forða mögulegu kerfishruni hér á landi? Hver er ávinningurinn fyrir íslenska þjóð að forðast það að hér geti mögulega ríkt upplausnarástand? Eru það hagsmunir erlendu kröfuhafanna að hlutirnir þróist með slíkum hætti í íslensku samfélagi? Að sjálfsögðu ekki. En það er heldur ekki gott fyrir íslenskan almenning og íslenskt atvinnulíf að hafa stjórnvöld sem sjá þetta ekki og hafa ekki skilning á því að menn þurfa að bregðast við núna. Við höfum ekki tíma til að greiðslumeta hvert einasta heimili eða fyrirtæki í landinu. Það er einfaldlega ekki ráðrúm til þess. Við höfum ekki í lýðveldissögunni upplifað aðra eins tíma og nú.

Ég segi það að mér finnst margir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar fljóta sofandi að feigðarósi þegar kemur að umræðu sem þessari og ég finn vaxandi kröfu hjá almenningi í landinu um að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hafi dug og þor í sér til að ráðast í róttækar aðgerðir til að koma til móts við þennan bráða vanda. Framsóknarflokkurinn hefur verið gagnrýndur allhressilega fyrir þær tillögur sem hann hefur lagt fram og pólitískir andstæðingar hafa reynt að setja hlutina í það samhengi að hér sé einhver kosningavíxill Framsóknarflokksins á ferðinni. Mér finnst ábyrgðarhluti hjá stjórnmálamönnum að láta slíkt út úr sér. Við framsóknarmenn erum að leggja til breytingar til hagsbóta fyrir heimilin og fyrirtækin og erum með fyrirbyggjandi aðgerðir ef vera skyldi að hlutirnir færu á versta veg og þá verður ekki aftur snúið, hæstv. forseti.

Ég vil nefna það hér að ég óskaði eftir því að hæstv. forsætisráðherra yrði við umræðuna. Hún hefur löglegar afsakanir fyrir því að vera ekki hér en mér er fyrirmunað að skilja það — um leið og ég bið hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá — að í þessari umræðu skuli ekki vera einn einasti fulltrúi frá stjórnarflokkunum. Það er vanvirðing gagnvart því starfi sem fjöldinn allur af hagfræðingum, sérfræðingum og fulltrúum úr íslensku atvinnulífi hefur lagt hönd á til að búa til þessar tillögur með okkur framsóknarmönnum. Það er alger vanvirðing að fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna skuli ekki koma í umræðuna.

Ég vil minna á það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á um skyldur þingmanna þegar þingfundur stendur. Það er ótrúleg tilviljun ef allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar hafa löglegar afsakanir á fjarveru sinni í þessari umræðu. Þegar eldar brenna um allt land og alla borg þá sést ekki einn einasti þingmaður stjórnarliðsins. Ég kalla það vanvirðingu og vil helst ekki yfirgefa þessa umræðu án þess að fá fulltrúa beggja stjórnarflokka til (Forseti hringir.) að gefa álit sitt á þeim tillögum sem við framsóknarmenn höfum lagt fram á Alþingi Íslendinga.