136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[19:40]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það lagast ekkert þótt hv. þm. Birkir Jón Jónsson komi í andsvar um að hér hafi verið flutt léleg ræða sem hafi efnislega tætt niður allar tillögur framsóknarmanna. Hann svarar ekki því: Hvað kostar þessi pakki? Hvað er verið að tala um háar upphæðir og hvað mun þetta kosta? Hvað kostar að fella niður 20% af öllum skuldum allra heimila í landinu? Hvað er verið að tala um í upphæðum?

Það er alveg ótrúlegt ef einhverjir fræðingar, hvort sem það eru hagfræðingar, lögfræðingar eða stærðfræðingar og jafnvel þó að hann bætti við fiskifræðingum, hversu bættari erum við með því og af hverju getum við ekki fengið að vita hverjar eru áætlaðar kostnaðartölur af þessari tillögu. Hvað kostar þetta þjóðina og hver á að borga brúsann og hvar og hvernig? Það er það sem þetta snýst um.

Það er hægt að vera með einhvern loforðalista um að skera niður 20% af skuldum fólksins í landinu, 20% af skuldum heimilanna, en það þarf að segja hvernig á að borga það, hver á að borga það og hvenær. Það er það sem þetta snýst um. Þetta er sýndarmennska, þetta er kosningavíxill og þetta er kosningatrix. Það er verið að plata fólkið í landinu, verið að reyna að afla sér fylgis með ómerkilegum yfirlýsingum eins og hv. þingmaður kom með og svo gerir hann lítið úr því þegar menn benda á þessa vitleysu sem er í gangi hjá Framsóknarflokknum, þessa vitleysu sem er verið að kynna hérna og reyna að plata fólk í landinu með.