136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[19:49]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er bersýnilegt að hv. þingmenn Framsóknarflokksins, sem hér eru staddir í umræðunni, eiga dálítið bágt með að verja þessa þingsályktunartillögu sína sem þeir hafa lagt hér fram og mælt fyrir.

Ég segi enn og aftur: Ég sé satt best að segja engan mun á fyrrverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og svo aftur núverandi stjórnarsamstarfi Samfylkingar og Vinstri grænna með stuðningi Framsóknarmanna.

Ég lít svo á að þessar tillögur séu ekkert annað en einhvers konar kosningatrix, kosningavíxill. Það er verið að blekkja fólkið í landinu. Það er verið að reyna að fá það til að kjósa sig út á þessar hugmyndir. Þetta er sams konar gjörningur um skuldir heimilanna eins og gert var á sínum tíma varðandi íbúðalánasjóðstrixið sem átti að vera. Það hefur valdið mörgum fjölskyldum miklum erfiðleikum og er búið að eyðileggja margar fjölskyldur. Við erum að tala um að 40% af fjölskyldunum og heimilunum í landinu eigi í verulegum erfiðleikum. Þetta kom til út af þessum 80% lánum hjá Íbúðalánasjóði og svo því að hinir nýeinkavæddu bankar fóru, í samkeppni við Íbúðalánasjóð, að lána 90–100% lán til íbúðakaupa.

En það er dálítið gaman að því að þrátt fyrir allt eru Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking og Vinstri grænir, fjórflokkurinn, í því að verja hver annað í þessum gjörningum sem þeir hafa verið að setja á svið og mæra hver annan eins og þeir geta.