136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[20:56]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram um tillögu okkar framsóknarmanna um hvernig bregðast megi við vanda íslenskra heimila og atvinnulífs. Sérstaklega þakka ég hæstv. fjármálaráðherra og nú hæstv. utanríkisráðherra fyrir að koma til þessarar umræðu. Það má segja að hæstv. utanríkisráðherra hafi bjargað andliti Samfylkingarinnar í umræðunni og ég þakka honum fyrir það hversu vel hann hefur tekið í hugmyndir okkar framsóknarmanna um hvernig við getum komið til móts við þann bráðavanda sem blasir við okkur.

Ég hef trú á því á grundvelli þeirra umræðna sem hér hafa farið fram á meðal forustumanna stjórnarflokkanna að við munum á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar, þar sem þetta mál verður rætt, afgreiða einhverjar þeirra tillagna sem við höfum eytt mjög miklum tíma í að semja og mæla fyrir á vettvangi Alþingis, að við náum að koma góðum málum til leiðar, til hagsbóta fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Ég legg áherslu á að við framsóknarmenn metum það svo að staða íslenskra efnahagsmála sé með þeim hætti að við verðum að ráðast nú þegar í róttækar aðgerðir, það sé einfaldlega ekki hægt að greiðslumeta hvert einasta heimili í landinu, hvert einasta fyrirtæki í landinu. Það er einfaldlega ekki tóm til þess og við erum eingöngu með þeim tillögum sem við höfum lagt fram hér að leiðrétta óðaverðbólgu síðustu 18–20 mánaða og þar eiga allir að njóta ávaxtanna að mínu viti. Það er verið að afskrifa stóra hluti í atvinnulífinu í dag og við teljum að það þurfi innspýtingu í íslenskt hagkerfi, í íslenskt efnahagslíf, til að koma í veg fyrir að hér verði alvarlegri kreppa en ella hefði orðið (Gripið fram í.) og það er með það að markmiði sem við leggjum þessa tillögu fram.

Ég vil að lokum þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa lagt þessu málefni lið í dag. Ég er sannfærður um að við munum ná að klára eitthvað af þessum málum úr efnahags- og skattanefnd. Og ég er sannfærður um að með tilstyrk hæstvirtra ráðherra og hv. þm. Péturs H. Blöndals munum við koma því í gegn þrátt fyrir andstöðu Frjálslynda flokksins í þessari umræðu.