136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

[13:36]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svarar því til að svo mikið sé að gera að ekki sé hægt að virða mannréttindi á Íslandi eða stuðla að því að setja einn eða tvo menn í það að semja við þessa ágætu menn. En það er hægt að gera ýmislegt annað, m.a. setja peninga í tónlistarhús og svoleiðis sem kostar 14–20 milljarða á sama tíma og við búum við að ekki er hægt að leiðrétta mannréttindabrot á þessum tveimur sjómönnum vestan af fjörðum, sem auðvitað er skammarlegt. Það er sorglegt að vita til þess að þessi ríkisstjórn skuli ekki geta snúið sér að verkum, eins og t.d. að leiðrétta mannréttindabrot, og sjái ekki sóma sinn í því heldur eyði tímanum í eitthvað allt annað. Hluti af því mikla uppgjöri sem þarf að gera á nýju Íslandi er að leiðrétta mannréttindabrot á íslenskum sjómönnum. (Forseti hringir.) Þetta er eitt af því sem við eigum að byrja á að gera.