136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

framkvæmd samgönguáætlunar.

382. mál
[15:30]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina og þingmanninum sem tók þátt í umræðunni. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram um hinar mannaflsfreku framkvæmdir og að við efnahagshrunið og það að missa 6 milljarða út úr samgönguáætlun hafi þurft að endurskoða alla áætlunina. Því er heldur ekki að leyna, virðulegi forseti, og ég ætla að ítreka það sem ég sagði áðan, að stærstu óvinir samgönguframkvæmda í dag eru verðbólga, háir vextir og lágt gengi. Þetta kemur verulega í bakið á okkur og tekur töluvert fé. Mörg verk sem eru í gangi verða dýrari en ætlað var. Mörg verk sem við erum að fara að bjóða út hafa hækkað mikið.

En á móti kemur að við erum að fá mjög góð tilboð — og 60% tilboð sem við höfum verið að fá núna. Það má segja það að sá sem hér stendur bíður spenntur eftir 24. mars þegar opnuð verða tilboð í Vopnafjarðarheiði, stórt og mikið verk, sem ég veit að margir verktakar hafa tekið útboðsgögn um og munu bjóða í.

Virðulegi forseti. Ég held að sem betur fer séum við öll sammála á hinu háa Alþingi um það stórátak sem hefur staðið yfir í samgöngumálum bæði 2008 og nú 2009. Áður hefur komið fram að við erum að vinna í bundnum verkum fyrir 15 milljarða á þessu ári og 6 milljarðar bætast við. Áherslurnar á það hvað verið er að gera eru dálítið óvissar. Við þekkjum það í landsbyggðakjördæmunum þar sem menn tala um að búa til veg. Spurningin þar er í raun og veru hvort menn komast milli A og B yfir höfuð ef ófærð er af snjó eða drullu. En hér á höfuðborgarsvæðinu er spurt á hvaða tíma komast menn á milli A og B.

Það hefur verið stórt og (Forseti hringir.) mikið atriði hingað til en inn í þetta blandast svo tölur sem við sjáum í umferðarmælingum, bæði frá Reykjavíkurborg og Vegagerðinni, (Forseti hringir.) þar sem umferð er miklu minni en hún var á „góðæristímanum“.