136. löggjafarþing — 110. fundur,  23. mars 2009.

staða fjármálafyrirtækja.

[13:11]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að þau tíðindi sem hæstv. viðskiptaráðherra greinir okkur frá nú eru mikil sorgartíðindi og það er mjög slæmt þegar fyrirtæki eins og þau sem hér um ræðir þurfa að fara í þrot. Vissulega hefur það sem hefur verið að gerast á fjármálamörkuðum víða í heiminum einnig náð hingað eins og við öll þekkjum, við vitum hvað hefur verið að gerast frá því í haust þegar stóru viðskiptabankarnir hrundu og síðan hefur þetta gengið koll af kolli. Vonandi er það rétt sem hæstv. viðskiptaráðherra sagði hér að með því sem nú hefur gerst förum við að sjá til lands, þ.e. að byggja upp heilbrigt og eðlilegt fjármálakerfi sem er forsenda þess að okkur takist að reisa atvinnulífið upp á nýjan leik. Auðvitað hlýtur að koma að því að botninum verði náð og vonandi markar þessi helgi viðspyrnuna um að okkur takist að byggja fjármálakerfið upp á nýjan leik.

Hæstv. viðskiptaráðherra hefur verið gagnrýndur talsvert fyrir það hvernig að því hefur verið staðið að upplýsa um þrot, sérstaklega þrot þessara tveggja banka, og að starfsmenn hafi ekki fengið nægar upplýsingar. Ekkert skal ég fullyrða um hvort það hefði mátt gera á einhvern annan hátt en hitt er alveg ljóst að aldrei verður greint frá tíðindum af þessum toga þannig að allir verði sáttir við það. Mér heyrðist á máli hæstv. viðskiptaráðherra að ástæðan fyrir því að þetta var gert seinni part laugardags væri sú að þannig var hægt að tryggja að eðlileg bankaviðskipti gætu átt sér stað hjá þeim einstaklingum sem áttu viðskipti við þessa tvo banka og forsendan fyrir því var að hægt væri að vinna að þessu aðfaranótt sunnudags þannig að þetta kæmi til með að virka á sunnudag.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni þegar hann talaði um mikilvægi þess að tryggja vöxt og viðgang sparisjóðakerfisins. Ég held að það sé mjög mikilvægt að aðilar á landsbyggðinni einkanlega hafi aðgang að fjármálastofnunum sem hafa sérþekkingu á þeirra málum. Mér er bæði ljúft og skylt að rifja það upp hér þegar ég og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson heitinn börðumst hart gegn því að sparisjóðirnir rynnu inn í stóru viðskiptabankana og tel ég að sú stefna sem þá var mörkuð hafi verið afar skynsamleg og líklega komið í veg fyrir að sparisjóðirnir væru núna allir komnir inn í viðskiptabankana með tilheyrandi afleiðingum. Ég tel, virðulegi forseti, að sá tímapunktur sem við nú stöndum á feli einnig í sér tækifæri til að endurskipuleggja fjármálakerfið og byggja það upp á nýjan og heilbrigðan hátt og það þurfum við að gera saman. Það er alveg ljóst. Þetta eru erfiðir tímar og þjóðin þarf að standa saman í þessari uppbyggingu því að ella mun það ekki takast.

Mér heyrðist á máli hæstv. viðskiptaráðherra að hann væri bjartsýnn á að nú væri farið að styttast í að við gætum gefið það út að við værum með heilbrigt bankakerfi og jafnvel, eins og hann orðaði það ágætlega, séum við í þeirri stöðu að verða fyrst út úr þeim hremmingum sem þjóðir heims hafa verið að ganga í gegnum vegna hrunsins sem gengið hefur yfir má segja heimsbyggðina undanfarna mánuði. Ég segi, virðulegi forseti: Guð láti gott á vita í þeim efnum.