136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

MS-sjúklingar og lyfjagjöf.

[15:20]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það að greinast með illvígan sjúkdóm er eitthvert það erfiðasta sem fólk tekst á við í lífinu, einstaklingar og fjölskyldur. Því hefur vakið mig til umhugsunar sú umræða sem verið hefur um MS-sjúkdóminn, sem er einna skæðastur þessara sjúkdóma, og að fram hefur komið að ákveðin brotalöm er í lyfjagjöf til þeirra sem haldnir eru þeim sjúkdómi. Umræðan í samfélaginu á undanförnum vikum og svo bréf sem okkur þingmönnum barst eða afrit af bréfi sem skrifað var til hæstv. heilbrigðisráðherra hreyfði virkilega við mér þar sem ung kona sem fyrir níu árum, þá um tvítugt, greindist með þennan sjúkdóm, greinir okkur frá stöðu sinni og segir m.a., með leyfi forseta:

„Það er ekki auðvelt að takast á við það tvítugur að greinast með alvarlegan sjúkdóm. Það er ekki auðvelt að þurfa að bíða eftir lyfi sem er til og hefur sýnt góðan árangur. Ég á tvö lítil börn sem lifa við það að mamma þeirra er með sjúkdóm og það hryggir mig. Það er því ekki auðvelt að vita af lyfinu og vera búin að fá jákvætt svar en svo gerist ekkert í marga mánuði.“

Fyrir rúmi ári síðan urðu mikil þáttaskil í meðferð MS-sjúklinga á Íslandi þegar byrjað var að gefa nýja lyfið Tysabri sem skilar almennt margfalt betri árangri en nokkru sinni hefur verið í meðferð á þessum sjúkdómi.

Ég vil því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig málin standa varðandi lyfjagjöf til þessara sjúklinga og hvers við megum vænta á næstu vikum og mánuðum í málefnum þeirra.