136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

MS-sjúklingar og lyfjagjöf.

[15:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það sem fram kemur í máli hv. þingmanns að hér er um að ræða viðkvæm mál og þegar fram koma lyf sem lina þjáningar sjúkra eða draga úr einkennum tiltekinna sjúkdóma sem leggjast á fólk þá er fullkomlega eðlilegt að fólk bindi miklar vonir við slík lyf.

Hv. þingmaður spyr um stöðu þessara mála hér á landi. Því er fyrst til að svara að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér fá hlutfallslega tvisvar til þrisvar sinnum fleiri sjúklingar þetta lyf en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Þetta er nokkuð sem vert er að hafa til umhugsunar. Hins vegar viljum við gera eins vel í þessum efnum og nokkur kostur er. Við verðum jafnframt að reiða okkur á ráðleggingar okkar bestu lækna varðandi gjöf þessa lyfs sem annarra lyfja. Hins vegar er eðlilegt að það sé aðhald gagnvart stjórnvöldum og einnig gagnvart heilbrigðiskerfinu og það er eðlilegt að samtök sjúklinga beiti sér.

Ég mun eiga fund með forsvarsmönnum MS-félagsins síðar í dag og sérfræðingar ráðuneytisins hafa verið að veita mér upplýsingar. En ég tek jafnframt fram að menn skulu fara fram með varúð áður en þeir kveða upp mjög þunga dóma í þessum efnum. Orðum manna fylgir talsverð ábyrgð hvað það snertir. Ég vil fullvissa hv. þingmann um það að við fylgjumst vel með þessum málum og (Forseti hringir.) og viljum sjá til þess að sjúklingar fái þá allra bestu (Forseti hringir.) meðferð sem völ er á.