136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

MS-sjúklingar og lyfjagjöf.

[15:24]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Heldur þótti mér þetta innihaldslaust hjá hæstv. heilbrigðisráðherra. Það liggur fyrir í dag að áætlað var að um 50 sjúklingar væru komnir á þetta lyf. Þeir eru ekki nema 45 þannig að það eru fimm enn eftir frá því sem áætlað var og 60 aðrir sem bíða.

Heildarkostnaður við að gefa þessu fólki þetta lyf á ári er áætlaður um 550 millj. eða um 5 millj. á sjúkling á ársgrundvelli. Ég held að hæstv. heilbrigðisráðherra ætti að snúa sér til hæstv. samráðherra sinna í ríkisstjórninni og sjá hvort ekki sé hægt að forgangsraða með einhverjum hætti þannig að hægt sé að mæta þörfum þessa fólks til betra lífs og þjóðfélaginu öllu til styrkingar.

Ef hæstv. heilbrigðisráðherra á í einhverjum vandræðum með þetta get ég gefið honum eitt ráð sem hann og flokksmenn hans hafa nú talað gegn á undanförnum mánuðum og það er t.d. að hætta því loftrýmiseftirliti sem er í gangi yfir landinu og kostar okkur (Forseti hringir.) samkvæmt fjárlögum hundruð milljóna á ári og setja þá peninga frekar í þetta verkefni.