136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

arðgreiðslur í atvinnurekstri.

[16:05]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Til þess að geta borgað arð í fyrirtæki þurfa að vera tekjur umfram skuldir. Er það hægt í öllum fyrirtækjum í dag? Það má kannski segja að hægt sé að teikna eignir inn í fyrirtækið með því að reikna veiðiheimildir á 4.200 kr. kílóið af þorskinum þó svo að gangverð sé jafnvel innan við þúsund kr. Það er hægt að búa til — ég ætla ekki að fullyrða um ársreikninga hjá einstaka fyrirtækjum en ég veit að mörg sjávarútvegsfyrirtæki í dag eiga ekki fyrir skuldum, eru tæknilega gjaldþrota og þau beita „barbabrellum“ í bókhaldinu. Þau hafa reiknað veiðiheimildir á toppverði eins og það var fyrir einu og hálfu ári síðan en síðan eru skuldirnar gerðar upp í evrum. Þau nota ýmiss konar „trix“ til að sýna stöðu fyrirtækjanna í betra ljósi svo að hægt sé að greiða arð út úr þeim. Það vita flestir sem þekkja til þessara mála. Þau hafa notið þess að þurfa ekki að borga auðlindagjald nema í litlum mæli og þau hafa fengið að færa milli ára 33% af veiðiheimildum til að halda uppi leiguverði. Þau leigja þorsk í dag á 160–170 kr. kílóið, fyrir áramót var það allt upp í 250 kr., og það er það arðbærasta sem þau gera. En að borga eins og HB Grandi gerir — 3,5% launahækkun er eiginlega ekki mikið og um það snýst málið ekki. Það snýst um hvort eðlilegt sé að fyrirtæki borgi sér arð við þær aðstæður sem eru í dag.