136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

stjórnarfrumvörp um efnahagsmál.

[16:20]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er dálítið sérstakt að sitja hér í salnum um þessar mundir og horfa upp á það að þingmenn rjúka upp með reglulegum hætti til þess að tala út og suður um hin og þessi mál. Núna kýs hv. þm. Bjarni Benediktsson að rjúka upp í umræðu um Seðlabankann og hv. þm. Jón Gunnarsson rýkur upp í umræðu um Íslandspóst og þetta er nú allt saman mjög ankannalegt. Ég hálfvorkenni hæstv. forseta að þurfa að halda utan um störfin við þessar aðstæður.

Það sem er aðalatriðið núna er að þingmenn sýni einhverja lágmarkssamstöðu um að reyna að klára mál sem hægt er að rökstyðja að séu til bóta. (Gripið fram í: Það stendur ekki á okkur.) Stendur ekki á okkur, kallar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hér fram í. (Gripið fram í: Og stendur við það.) Fyrir stuttu síðan horfðum við upp á þvílíkt málþóf hjá Sjálfstæðisflokknum en svo sáu þeir að sér sem betur fer. Við framsóknarmenn vildum gjarnan sjá öflugri efnahagsaðgerðir. (Gripið fram í.) Við vildum (Forseti hringir.) gjarnan sjá það og höfum lagt það fram hér. En við ætlum að styðja ríkisstjórnina í þeim góðu málum sem þó er verið að vinna að og við ætlum að halda okkur (Forseti hringir.) að verki.

Þjóðin á heimtingu á því að þingmenn haldi sér að verki við að koma góðum málum fram. (Forseti hringir.) Það er vont til þess vita, virðulegur forseti, að menn þurfi að rjúka upp við og við og eyða tíma þingsins í þetta þras. (Forseti hringir.) Nú eigum við að hætta því.