136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

stjórnarfrumvörp um efnahagsmál.

[16:26]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir fór mikinn í ræðustól áðan og talaði um að það hafi verið mikil fyrirstaða hjá sjálfstæðismönnum í einstökum málum í nefndum. Hún bauð þannig upp í dans í allsherjarnefndinni en staðan er þannig þar að þar er til umræðu eitt mikilvægasta málið núna, svokallað frumvarp um greiðsluaðlögun. Mál sem hefur verið í vinnslu í allan vetur. Mál sem ég hygg að sé mikil samstaða um í þinginu almennt. Mál sem Sjálfstæðisflokkurinn styður eindregið. En það er ekki viðlit að koma málinu út úr nefndinni á þeim hraða sem æskilegt hefði verið vegna þess (Gripið fram í.) að Vinstri grænir kjósa að hengja þetta mál við annað mál.

Það getur vel verið að hv. þm. Siv Friðleifsdóttur þyki leiðinlegt að hlusta á þetta. En staðreyndin er auðvitað sú — (Gripið fram í: Þetta er óréttlátt.) þetta er ekki óréttlátt, hv. þingmaður. Staðreyndin er sú að þetta er eitt það brýnasta mál sem varðar heimilin í landinu.

Ég veit að það er vilji til þess að víða í nefndinni að þetta mál sé tekið út hið allra fyrsta. Ég vil að það komi fram í þessari umræðu að sjálfstæðismenn (Forseti hringir.) eru ekkert fyrir í því máli og hreint ekki í neinum þeim málum sem hér hafa verið til umræðu. Þannig að því sé til haga haldið, herra forseti.