136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

atvinnuleysistryggingar.

376. mál
[19:00]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir góðar undirtektir við þetta mál. Sannarlega held ég að gott sé að hafa ákvæðið einungis bundið til næstu áramóta, þetta er nýtt úrræði hjá okkur. Ég óttast, eins og hv. þingmaður, að tímabilið verði lengra, en þá gefur það okkur líka tilefni til að fara yfir hvernig það hefur reynst, hvernig Vinnumálastofnun hefur höndlað þetta og hvernig þetta skilar sér. Hvort bæði starfsmenn og atvinnurekendur notfæra sér þetta úrræði o.s.frv. Ég held að mikilvægt sé að gera það.

Varðandi það að meta megi 24 mánuði aftur í tímann, þá er það oft svo hjá einyrkjum og sjálfstætt starfandi að þeir verða ekki skyndilega atvinnulausir heldur hefur hugsanlega smám saman dregið úr atvinnu hjá þeim og því ekki talið réttmætt að miða bara við síðustu tólf mánuði heldur skoða hvernig kjör og laun sjálfstætt starfandi einstaklinga hafa verið á lengra tímabili og ástandið fyrir tveimur árum gefur kannski raunhæfari mynd en síðasta ár. Það er hugmyndin sem liggur að baki.

Hvað varðar einyrkjana, þá vinna þeir sem eru sjálfstætt starfandi undir eigin kennitölu en þeir sem vinna undir kennitölu fyrirtækisins eru nefndir launamenn og réttindi þeirra miðast við það. Ársmenn eru svo áfram bændur og listamenn sem hafa takmarkaðar tekjur og geta greitt tryggingagjald einu sinni á ári, en þetta (Forseti hringir.) er viðmiðunin sem kom fram í nefndinni.