136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[19:07]
Horfa

Björn Bjarnason (S):

Herra forseti. Ég vil fagna því að þetta frumvarp er komið til 2. umr. og að um það ríkir samstaða í hv. allsherjarnefnd. Ég tel mikilvægt að gengið sé til þess að ljúka meðferð málsins hér í þinginu en vildi engu að síður nota þetta tækifæri til að segja nokkur orð um embættið og framvindu mála, því mér finnst að í nokkru hafi verið vikið að embættinu á ómaklegan hátt í umræðum, ekki hér á hinu háa Alþingi, heldur í fjölmiðlum og annars staðar á undanförnum dögum. Sérstaklega hefur það vakið athygli mína og undrun að að því hefur verið vikið að draga megi í efa hæfi hins sérstaka saksóknara vegna þess að hann hafi verið sýslumaður á Akranesi og látið í veðri vaka að þeir sem hafi gegnt sýslumannsembætti utan höfuðborgarsvæðisins séu kannski ekki til þess fallnir að sinna verkefni eins og því sem hér um ræðir.

Ég vil eindregið mótmæla slíkum málflutningi og fagna því að fá tækifæri til þess hér í þingsalnum að andmæla öllu slíku tali, sem ég tel algjörlega ómaklegt, sérstaklega við þennan ágæta embættismann, en almennt líka gagnvart sýslumönnum, að láta eins og málum sé þannig háttað að þeir sem gegni störfum sýslumanna utan höfuðborgarsvæðisins séu ekki til þess fallnir að takast á við erfið viðfangsefni. Raunar er það svo, hæstv. forseti, að með stækkun umdæma lögreglustjóra og breytingu á embættum sýslumanna hefur dóms- og kirkjumálaráðuneytið flutt verkefni úr sínum véböndum til sýslumanna víðs vegar um landið, flókin og viðkvæm verkefni sem þeir sinna vegna lögfræðilegrar þekkingar sinnar eða sérkunnáttu á því sviði og vegna þess að þessi embætti eru mikilvæg og nauðsynleg til að halda uppi allsherjarreglu í þjóðfélaginu og sinna þeim þjónustuverkefnum sem þeim ber að sinna gagnvart öllum borgurum landsins. Virðulegi forseti, ég vildi sérstaklega fá tækifæri til að segja þetta af því að mér finnst að ómaklega hafi verið vegið að hinum sérstaka saksóknara að þessu leyti.

Hitt er síðan ánægjuefni að samstaða er í hv. allsherjarnefnd um að veita hinum sérstaka saksóknara auknar heimildir. Ég lét þess getið þegar ég tók til máls við 1. umr. þessa frumvarps að ágreiningur hefði verið í fyrrverandi ríkisstjórn um þessar heimildir á milli dómsmálaráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins og ég hefði sem dómsmálaráðherra, til þess að stuðla að framgangi málsins, samþykkt að ganga ekki eins langt og við í dómsmálaráðuneytinu töldum nauðsynlegt í upphafi varðandi heimildirnar. Reynslan hefur sýnt, sem og þetta frumvarp og sú samstaða, sem er um það hér í þinginu og kemur fram í áliti hv. allsherjarnefndar, að skilningur er á því hér í þinginu að veita þær víðtæku heimildir sem mælt er fyrir um í frumvarpinu og nú á að lögfesta eftir meðferð nefndarinnar. Þær breytingar sem hv. formaður nefndarinnar gerði grein fyrir, eins og hann sagði varðandi þennan þátt frumvarpsins, eru smávægilegar og tengjast frumvarpi viðskiptaráðherra um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Þarna hefur því myndast góð samstaða um þetta og er það mikilvægt um framvindu mála hjá þessu embætti.

Einnig fagna ég því að nefndin hefur við meðferð málsins tekið ákvörðun um að vikið skuli frá skyldu 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til að auglýsa störf hjá embætti sérstaks saksóknara og vill þannig stuðla að því að ekki þurfi að fara í þungt ferli til að ráða starfsmenn sem nú eru einkum hjá embætti efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og auðgunarbrotadeildar lögreglustjóraembættisins á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er líka mikilvægt skref til að auðvelda hinum sérstaka saksóknara að fjölga starfsmönnum, því eins og fram hefur komið í umræðum var alltaf litið þannig á að með þeim fjórum starfsmönnum sem lagt var upp með væri í raun verið að stíga fyrsta skrefið og síðan mundi koma í ljós við framvindu mála hvað starfsmennirnir þyrftu að vera margir.

Það er einnig fagnaðarefni að þegar hefur tekist að skapa alþjóðleg tengsl, eins og fram hefur komið hefur hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra beitt sér fyrir því að semja við hinn heimskunna franska saksóknara, Evu Joly, um samstarf, og þá er líka þá búið að leggja grunn að alþjóðlegu samstarfsneti, sem er mikilvægt.

Ég vil einnig vekja athygli á því við þessar umræður að tengslafulltrúi Íslands hjá Europol í Haag, Arnar Jensson, hefur í ársskýrslu sinni fyrir síðasta ár, sem hefur verið birt núna, vakið athygli á því að þar eru líka kostir til að efla alþjóðlegt samstarf á samningsbundnum grunni þar sem algjör trúnaður ríkir á milli rannsakenda. Ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir hinn sérstaka saksóknara og aðra sem koma að þessum rannsóknum að nýta sér tengslin við Europol og tel að það eigi í raun og veru að fella það undir ákvarðanir um fjárveitingar til rannsókna á þessu sviði að sjá til þess að unnt verði að halda úti starfsemi hjá Europol og leggja í því starfi áherslu á þann þátt sem snertir efnahagsrannsóknir, peningaþvætti og annað slíkt.

Einnig hefur komið í ljós, virðulegi forseti, eins og við vitum, að tengslafulltrúinn í Haag hefur skipt miklu varðandi uppljóstrun á fíkniefnamálum. Þegar farið er inn á rannsóknir á efnahagsbrotum og alþjóðlegum tengslum er ákaflega mikilvægt að gera það í samskiptum við alþjóðastofnanir sem hafa áunnið sér traust og starfa samkvæmt skýrt þróuðum og skilgreindum reglum. Þess vegna er mikilvægt að litið verði til tengsla hins sérstaka saksóknara við embætti tengslafulltrúans hjá Europol í Haag. Það finnst mér að eigi að hafa í huga þegar um þessi mál er rætt, nú þegar þetta er komið á þennan rekspöl og sá stuðningur fæst við störf hins sérstaka saksóknara sem felst í þeirri samstöðu hér í þinginu um að víkka heimildir hans og auðvelda honum mannaráðningar.

Þá fagna ég því líka sérstaklega að fram hefur komið hjá hæstv. fjármálaráðherra að hann muni beita sér fyrir auknum fjárveitingum til embættisins, því þegar lagt var af stað sl. haust og þessi mál voru reifuð og rædd og gerðar tillögur um embættið var ákveðin tortryggni í garð þeirra sjónarmiða að fjárheimildir ættu að vera rúmar og var sátt um það innan ríkisstjórnarinnar að miða við 50 millj. kr. Nú hefur komið fram að hæstv. núverandi fjármálaráðherra lítur þannig á og vafalaust talar hann þar með samþykki forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar, a.m.k. miðað við þau vinnubrögð sem ég þekki við ákvarðanir sem þessar, og hefur lýst yfir stuðningi við að auka þær fjárveitingar. Ég geng líka út frá því sem vísu að eðlilegt samráð hafi verið haft við fjárlaganefnd þingsins þegar slíkar yfirlýsingar eru gefnar þannig að ekki eigi að vera neinn hnökri á því að taka síðan ákvarðanir um að tryggja það fjármagn sem þarf til að þessar rannsóknir geti orðið með þeim hætti að allir séu sáttir við framgöngu mála.

Mér finnst þetta hafi þróast á þann veg, virðulegi forseti, og að frumvarp og afgreiðsla hv. allsherjarnefndar sé á þann veg að víðtæk pólitísk samstaða sé um að þetta embætti vaxi og dafni og geti sinnt verkefnum sínum með þeim hætti sem við teljum nauðsynlegt í ljósi atburða og upplýsinga. Þess vegna mæli ég eindregið með því að við greiðum götu þessa máls hér í þinginu og það verði lögfest.

Ég vil, virðulegi forseti, áður en ég lýk máli mínu spyrjast sérstaklega fyrir um þennan fjárlagaþátt, hvort um það hafi verið fjallað í hv. allsherjarnefnd hvernig haga þyrfti fjárveitingum til að ná þeim markmiðum sem nefndin hefur vafalaust rætt á fundum sínum varðandi embættið og hvort það liggi fyrir hjá hv. nefndarmönnum hvaða hugmyndir hæstv. fjármálaráðherra hefur um fjárveitingar til embættisins eða þróun þess að öðru leyti með auknum fjárheimildum.