136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

ESB-aðild – álver í Helguvík.

[13:36]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég vil bara árétta þau orð formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, um að það eru brýnni mál að fást við á næstunni en að fara að takast á um inngöngu í Evrópusambandið. Hins vegar er stefna Vinstri grænna alveg skýr í þessu efni, við teljum að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins og ályktanir og vinna sem hefur farið í gang t.d. af hálfu Bændasamtakanna og fleiri slíkra samtaka styðja það mjög afdráttarlaust.

Hins vegar gerum við okkur líka grein fyrir því að það fer eftir meirihlutavilja þjóðarinnar í þeim efnum, komi málið til hennar, og þá er það svo að þingstyrkur og styrkur Vinstri grænna fyrir þennan málstað ræður m.a. áhrifum flokksins hér á þingi í þeim efnum. Við þekkjum vilja Samfylkingarinnar eða a.m.k. þess hluta hennar sem talar fyrir inngöngu í Evrópusambandið og við þekkjum líka vilja Framsóknarflokksins um að gera það. Við bíðum eftir því hvað Sjálfstæðisflokkurinn gerir, hann virðist ekki enn þá hafa gert það upp við sig en ég árétta það (PHB: ... Eruð þið að biðja um Sjálfstæðisflokkinn?) Nei, ég er bara að vekja athygli á því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki mótað stefnu í þessu máli, hann hyggst gera það á næsta landsfundi, vonandi, en … (Gripið fram í: Hver er stefna Vinstri grænna?) Hún er skýr, við teljum okkur best borgið utan Evrópusambandsins og til þess liggja mörg og sterk rök. En við gerum okkur líka grein fyrir því að fari málið það langt þá er það að sjálfsögðu þjóðarviljinn og þjóðaratkvæðagreiðslan sem ræður. Við óttumst ekki heldur þjóðaratkvæðagreiðslu hvað ESB varðar, við erum svo sannfærð um að meiri hluti þjóðarinnar tekur þar rétta ákvörðun.