136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

ESB-aðild -- álver í Helguvík -- sparnaður í heilbrigðiskerfinu.

[13:53]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það er varla hægt að bæta nokkru við þau orð sem komu frá hv. þingmanni hér á undan. Fyrir rúmum mánuði tókum við umræðu á hinu háa Alþingi um skýrslu heilbrigðisráðherra um heilbrigðismál. Það var fátt um svör og eiginlega afar fátt um svör, það var með því fátæklegra sem maður hefur heyrt um ævina. Ekki hafa svörin skýrst í dag frá hv. þm. Þuríði Backman.

Það sem stóð eftir af umræðunni fyrir mánuði var að allur þungi sparnaðar ætti að leggjast á Landspítala – háskólasjúkrahús. Hann átti að taka niður 2,7 milljarða kr. Það var fallið frá því að sameina heilbrigðisumdæmin, það var fallið frá því að sameina stofnanir og samstarf sjúkrahúsanna í kraganum var sett í biðstöðu.

Afleiðingin er sú að starfsfólk Landspítalans situr uppi með þá tilfinningu að það eitt eigi að taka á sig sparnað og aðrar heilbrigðisstofnanir í kringum Reykjavík eru í lausu lofti. Þær hafa ekki fengið leiðbeiningar frá heilbrigðisráðuneytinu um hvernig þær eigi að ná niður kostnaði. Fjórðungur af árinu er liðinn og engar tillögur liggja fyrir.

Ég vil líka nefna annað mál, sameiningu heilbrigðisstofnana á Austurlandi sem hv. þm. Þuríður Backman þekkir mætavel til. Á fundi heilbrigðisnefndar í síðustu viku var m.a. rætt um Heilbrigðisstofnun Austurlands og m.a. voru stjórnendur stofnunarinnar inntir eftir því hvort það hefðu verið mistök að sameina stofnanirnar á sínum tíma. Það var eindregin skoðun þeirra — þau voru afdráttarlaus í þeim svörum — að þetta hefði verið rétt skref, það hefði verið gott fyrir þjónustuna, fyrir skipulagið, fagfólkið og sjúklingana.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Telur hann að það að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur horfið frá sameiningu heilbrigðisumdæma í Héraði hafi verið mistök, hann sé með því móti að taka af þessum svæðum (Forseti hringir.) tækifæri til að bæta heilbrigðisþjónustuna? Er það (Forseti hringir.) niðurstaðan? Er það það sem hæstv. heilbrigðisráðherra vill gera?