136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[15:10]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nei, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Ég tel það ekki brýnt verkefni með tilliti til ástandsins sem nú er í samfélaginu að fara í að umbylta vinnulöggjöfinni á Íslandi, langt í frá. Ég tel að við þær óvenjulegu aðstæður sem hér ríkja þurfum við að einbeita okkur að öðrum hlutum. Í mínum huga er endurskoðun á lagaumhverfi í viðskiptalífinu og í lagaumhverfi eins og hér hefur verið rætt um, um nýju bankana, miklum mun mikilvægara verkefni. Ég held að þeir opinberu starfsmenn og þeir sem sinna nú störfum með minna kaup og undir meira álagi í velferðarþjónustunni okkar eigi ekki að beina kröftum sínum í að stokka upp lagaumhverfið heldur þvert á móti á að leyfa fólki að vinna sín störf í friði og ró að því leytinu til.