136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[15:17]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til að þakka fyrir þær málefnalegu umræður sem átt hafa sér stað um þetta frumvarp. Af því að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir er hér í salnum, og talaði um að ekki stæði á sér að vinna vinnuna sína, finnst mér eðlilegt að vekja athygli á því að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir er eini stjórnarþingmaðurinn í salnum auk virðulegs forseta. Það er spurning hvort það er mælikvarði, ég reikna með að þingmenn vinni vinnuna sína með öðrum hætti. En það er hins vegar athyglisvert að enginn þeirra þingmanna sem greiddu atkvæði með því að hér yrði settur á lengri fundur, fram á kvöld og þess vegna fram á nótt, er hér í salnum nema hv. þm. Álfheiður Ingadóttir. Aðrir eru horfnir á braut, þá til einhverra annarra hluta. Mér finnst eðlilegt að vekja athygli á því vegna þeirra orða sem látin voru falla fyrr í dag, en þakka síðan hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir afsökunarbeiðnina sem hún sendi, m.a. mér, vegna ummæla sinna. Ég tek henni að sjálfsögðu með þökkum.

Varðandi ummæli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur um bankaleynd og að hér væri fjallað um frumvarp sem fæli í sér að verið væri að afnema bankaleynd þá er það ekki rétt. Það er verið að heimila víðtækari rannsóknarheimildir fyrir það sérstaka embætti sem hér er um að ræða, þ.e. embætti sérstaks saksóknara. Það er eingöngu um það að ræða en ekki almennt frumvarp til þess að breyta að einhverju leyti ákvæðum laga eða reglna um bankaleynd. Þær eru eftir sem áður hinar sömu og verið hafa og um það hefur verið rætt að nauðsynlegt væri að gera breytingar á þeim reglum. Ég hygg að víðtæk samstaða sé um það hér í þinginu að unnið sé að því að gera breytingar á reglum um bankaleynd og aflétta henni í þeirri mynd sem hún er. Boðaðar breytingar af hálfu ríkisstjórnarinnar, af hálfu viðskiptaráðherra, hvað það varðar hafa ekki komið fram, á því stendur. Engin tillaga liggur hér fyrir til umfjöllunar um að vinna eigi að afnámi bankaleyndar sem er vissulega tímabært.

Að gefnu tilefni vil ég taka fram að ég tel að þær reglur sem verið hafa við lýði um bankaleynd séu gjörsamlega fráleitar eins og nú háttar til og hafi því miður verið ákveðið skjól fyrir brotastarfsemi, þar á meðal alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi. Ég er ekki að tala um að eitt eða neitt af íslensku fjármálafyrirtækjunum hafi verið slíkt skjól en það er alveg ljóst að þessi leynd hefur virkað gegn þeim hugmyndum sem ætlunin var að vernda og snúist upp í það að vera til þjóðfélagslegs tjóns. Brýna nauðsyn ber til að gera þarna breytingar á og þess vegna hefði verið æskilegt að fyrir þinglok hefði verið hægt að afgreiða frumvarp til laga þar sem breytingar yrðu gerðar hvað þetta varðar.

Ég lít þannig á að það sé eitt það brýnasta sem um er að ræða varðandi það að koma breytingum og nýskipan á mál er tengjast fjármálastarfseminni í landinu, þ.e. að sett sé öðruvísi regluverk um fjármálastofnanirnar þannig að þær þurfi að gæta sömu sjónarmiða og hagsmuna og um er að ræða að öðru leyti í viðskiptalífinu og þurfi að standa opnar fyrir rannsóknaraðilum og gefa upplýsingar um það sem hugsanlega getur verið nauðsynlegt að fá upplýsingar um til að saksóknarar og/eða þeir sem eru að rannsaka mál geti myndað sér skoðun um það hvort um brotastarfsemi hafi verið að ræða eða ekki.

Bæði hv. þm. Birgir Ármannsson og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gerðu grein fyrir því að góð samstaða hefði verið um stofnun embættis sérstaks saksóknara og það er í sjálfu sér rétt svo langt sem það nær. Ég gerði hins vegar athugasemdir við það á sínum tíma þegar þetta sjónarmið var fyrst orðað hér í þinginu, áður en frumvarp um embætti sérstaks saksóknara kom til afgreiðslu, að það gæti verið spurning hvort ekki væri heppilegra að styrkja meir embætti þeirra sem hefðu með rannsóknir á efnahagsbrotum að gera eða hvort betra væri að fara þá leið sem síðan var farin, þ.e. með stofnun embættis sérstaks saksóknara.

Þegar við gengum frá því frumvarpi og allsherjarnefnd fór yfir það og gerði nauðsynlegar ráðstafanir og breytingar á því töldum við að þar væri um að ræða — og hefði verið samið um og gengið frá víðtækum heimildum til handa sérstaks saksóknara og hann gæti rækt starf sitt sem best og gæti komið áfram þeim málum sem nauðsyn ber til að gera í sambandi við efnahagshrunið sem hefur orðið á Íslandi og þeim afbrotum sem hugsanlega eru tengd því.

Það liggur hins vegar fyrir að það þarf að veita embætti hins sérstaka saksóknara mun rýmri heimildir og er góð samstaða um að standa þannig að málum og er ekkert annað en gott um það að segja. Varðandi það nefndarálit sem fylgir þessu máli frá allsherjarnefnd liggur fyrir að allir viðstaddir nefndarmenn, þar á meðal sá sem hér stendur, standa að nefndaráliti um þá lagabreytingu sem hér er til umræðu og leggjum við til að hún verði samþykkt. Það geri ég.

Ég tel mjög gott að ná fram þeirri rýmkun sem hér er um að ræða og tel hana nauðsynlega. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort ekki sé nauðsynlegt að hafa sams konar ákvæði almennt í lögum þannig að sömu heimildir gildi um aðra saksóknara svo að þeir hafi þær heimildir sem hér er fjallað um, að geta óskað eftir atriðum sem þýðingu geta haft við rannsókn sakamáls eða ákvarðanatöku um það hvort rétt sé að hefja slíka saksókn og annað í þeim dúr, þ.e. að þeir geti haft, án sérstakra dómsúrskurða og sérstakra aðgerða, þær heimildir sem verið er að fjalla um að veita hinum sérstaka saksóknara. Ég hefði talið mjög æskilegt að þannig væri farið að, að heimildir hvað þetta varðar til upplýsingaöflunar yrðu mjög rýmkaðar. Í ljósi þeirra aðstæðna sem við búum við tel ég mikilvægt að við höfum réttarfarsákvæði einsleit, að við búum ekki til sérstök atriði fyrir eitt embætti sem gildir ekki fyrir annað. Ég hefði því talið í fyrsta lagi, og taldi á sínum tíma þegar afgreitt var mál um sérstakan saksóknara, að varðandi heimildir til þess að falla frá kæru eða veita afslátt af refsingu hefði átt að miða við þau ákvæði sem gilda í almennum hegningarlögum hvað það varðar, sem eru hin almennu ákvæði um það atriði. Ef breytingar hefði átt að gera hefði verið eðlilegt að gera breytingar á almennum hegningarlögum til þess að það sama gilti um alla hvað þetta varðar.

Mér hefði fundist eðlilegt að hafa þá umgjörð, þ.e. að um hinn sérstaka saksóknara giltu sömu atriði og gilda almennt við réttarvörslu og réttarframkvæmd í landinu. Það sama tel ég að eigi við hér, það sé mjög mikilvægt að hið sama gildi um hinn sérstaka saksóknara og aðra saksóknara í þessu landi, að þeir hafi víðtækar rannsóknarheimildir, ekki minni rannsóknarheimildir en hér er lagt til, í því frumvarpi sem hér er til umræðu, að veitt sé embætti hins sérstaka saksóknara. Það fyndist mér eiginlega höfuðatriði og ég beini því til hæstv. dómsmálaráðherra, sem hér er, að hún hlutist til um það að láta útbúa frumvarp til breytingar á lögum hið fyrsta þar sem miðað er við það að sú almenna regla gildi að saksóknarar geti fengið sömu heimildir og hér er lagt til hvað varðar hinn sérstaka saksóknara.

Það skiptir gríðarlega miklu máli að sem gleggstar og bestar upplýsingar geti legið fyrir við rannsókn sakamála. Það skiptir máli hvort ákvörðun er tekin um að ákæra einstakling eða gera það ekki og að þær ákvarðanir byggist á traustum gögnum og málefnalegum grundvelli. Eins og það var orðað á sínum tíma þegar — ég hygg að það hafi verið þegar lagt var til að stofnað yrði embætti sérstaks saksóknara á sínum tíma en þá var talað um að stofna embætti ríkissaksóknara vegna þess að áður fyrr heyrði það mál undir dómsmálaráðherra. Þegar lagt var fram frumvarp til laga um að stofnað yrði embætti sérstaks saksóknara sem skyldi vera ríkissaksóknari ræddi flutningsmaður um að það skipti gríðarlega miklu máli að heimildir saksóknara til upplýsingaöflunar væru rúmar og ræddi sérstaklega í því sambandi, ef mig rekur rétt minni til, að það væri mjög mikilvægt að þeir sem ekkert hefðu til saka unnið en lægju undir grun gætu losnað við það að ákæra væri gefin út á hendur þeim. Þannig hefur það því miður oft verið í íslenskri réttarframkvæmd að menn hafa mátt þola að fá á sig ákærur, algjörlega að tilefnislausu eða tilefnislitlu. Það er einn af mikilvægustu hlutum í sambandi við réttarríkið að til þess þurfi ekki að koma nema í sem allra fæstum tilvikum. Ég lít á það sem eitt mikilvægasta atriðið í því sambandi að rannsóknaraðilar geti þá aflað sér þeirra gagna, viðhlítandi gagna, sem gerir þeim fært að taka málefnalega afstöðu til þess hvort ákæra skuli eða ekki.

Nú háttar svo til að í þjóðfélaginu, frá því að efnahagshrunið varð, hafa óendanlega miklar sögusagnir og samsæriskenningar verið á sveimi og margir hafa verið bornir mjög þungum sökum, þar á meðal ýmsir ráðamenn þjóðarinnar. Það skiptir því miklu máli að mál fáist rannsökuð sem allra fyrst og með sem öruggustum hætti. Ég verð að lýsa ánægju minni yfir því að hæstv. dómsmálaráðherra skuli hafa upplýst þjóðina um það að meiningin sé að styrkja mjög embætti hins sérstaka saksóknara með þeim ummælum sem hún viðhafði á blaðamannafundi í dag þar sem rætt var um að saksóknari fengi 16 fastráðna menn sér til aðstoðar við sitt vandasama starf, auk þess sem fjallað er um að til þess kunni að koma að þar þurfi aukinheldur að ráða sérfræðinga að málum.

Ég reikna því miður með að sá fjárlagarammi sem er skammtaður þessu embætti verði þannig að Alþingi þurfi að bæta við fjárheimildum til þess að saksóknarinn geti þá unnið það verk sitt svo sem til er ætlast og miðað við þann aukna starfsmannafjölda sem um er að ræða.

Það að fjölga svo í starfsliði hins sérstaka saksóknara hefur að mínu viti grundvallarþýðingu í sambandi við það að embættið hafi frumkvæði að því að kanna mál. Ég gat ekki séð, miðað við það hvernig embættið virtist fara af stað, annað en að miklu víðtækari hlutir, sem ég hygg að bæði núverandi hæstv. dómsmálaráðherra og fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra hafi fúslega viljað leggja embættinu til, þyrftu að koma til — það væri nauðsynlegt að miða við að þetta embætti hefði jafnvel frekar en önnur embætti saksóknara í landinu frumkvæði að því að fara að kanna mál, skoða hvort einhver fiskur lægi undir steini þannig að nauðsynlegt væri að velta steininum við. Ég lít svo á, virðulegi forseti, að það sé mjög mikilvægt í þessu þjóðfélagi miðað við það sem um hefur verið að ræða að hverjum einasta steini verði velt við, það verði með skjótum hætti gengið úr skugga um það hvort um afbrot hafi verið að ræða eða ekki, afbrot sem leitt gætu til kæru og refsingar.

Þrátt fyrir að ég hafi haft ákveðinn fyrirvara varðandi það að embætti sérstaks saksóknara yrði sett á laggirnar, þar sem ég velti fyrir mér hvort heppilegra væri að styrkja það embætti sem fyrir var, en það var alveg ljóst að það var eindreginn vilji mikils meiri hluta þingsins að fara þá leið sem farin var. Þá stöndum við frammi fyrir því og okkur ber að tryggja það að hinn sérstaki saksóknari í þessum brotaflokki hafi sem víðtækastar heimildir og hafi sem rýmst fjárráð og möguleika til að ráða til sín löglærða aðila sem eru sérfræðingar í bankamálum, bankarétti og öðru, til að hægt sé að ljúka rannsóknum og hafa þær á sem málefnalegustum grunni.

Ég kom aðeins að skoðun á máli sem bandaríska skatteftirlitið hafði til meðferðar en það snerti bankamál og bankalegar tilfærslur. Í ákveðnu einbýlishúsi á vesturströnd Bandaríkjanna bjuggu hjón sem höfðu rekið mjög viðamikla svikastarfsemi og þurfti mikinn mannafla til að rannsaka málið í þaula, fá upplýsingar og ná niðurstöðu um hvað þar hefði raunverulega gerst. Þar sá ég að til þess að ganga þannig frá málum og koma þeim fjármálaviðskiptum sem þar voru til skoðunar tryggilega í höfn — til þess að reyna að fela slóðina fyrir þeim sem kynnu að rannsaka var um að ræða allt að 40–60 tilfærslur varðandi hverja einustu færslu. Miðað við það sem maður hefur séð og það sem upplýst hefur verið upp á síðkastið hafa þeir hlutir gerst í íslensku fjármálakerfi sem maður hafði hreinlega ekki hugarflug, ekki ímyndunarafl, til að láta sér detta í hug að gæti verið um að ræða og menn gætu staðið í. Þess vegna, virðulegi forseti, tel ég mjög brýnt að við afgreiðum þetta frumvarp sem allra fyrst sem lög frá Alþingi.

Ég skora á hæstv. dómsmálaráðherra að halda áfram með sama hætti og hún boðaði á fréttamannafundi í dag, að styðja við og styrkja embætti sérstaks saksóknara svo að það nái þeim árangri sem til er ætlast.