136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[15:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en má til með að koma nokkrum atriðum að. Þegar hrunið varð í október nefndi ég að það væri mjög brýnt að ausa bátinn og koma atvinnulífinu í gang aftur, neyðarlögin o.s.frv. Síðan væri mjög mikilvægt að rannsaka hvað hefði valdið því hruni sem varð og að síðustu að kannað yrði hvort eitthvað hafi átt sér stað sem brýtur í bága við lög. Ég varð því mjög ánægður þegar lög voru sett um sérstakan saksóknara og ég tel að það sé mjög brýnt.

Fréttir undanfarinna mánaða eru hins vegar þannig að málið er eiginlega miklu brýnna en ég átti von á. Ég hafði alltaf reiknað með því að — þegar menn lenda í ógöngum við gjaldþrot og annað slíkt þá verður tilhneiging og freisting til að henda góðum peningum á eftir slæmum og ganga út á ystu nöf í samræmi við lög og reglur. En þær fréttir sem okkur hafa borist benda því miður til þess að gott betur en það hafi gerst, alveg ótrúlegar fréttir um gífurlegar lánveitingar í Kaupþingi o.s.frv., og þá er það kannski spurning hvort slíkt varði yfirleitt við lög. Ef svo er ekki finnst mér mjög brýnt að menn breyti lögum.

Hér hefur aðeins verið rætt um að fjölga starfsmönnum og menn hafa talað um það almennt. Menn hafa talað um að fjölga listamönnum, kannski um 30 manns eða eitthvað slíkt og það kosti 107 millj. kr., en ég mundi miklu frekar vilja sjá fjölgun hjá umræddu embætti — listamenn eru ágætir út af fyrir sig en hér er verið að vinna starf sem ég tel mjög mikilvægt. Af hverju er það mikilvægt, frú forseti? Vegna þess að það er svo mikið atriði fyrir atvinnulífið að við byggjum aftur upp traust. Þegar menn verða vitni að þeim ósköpum sem fréttir undanfarinna daga, vikna og mánaða bera með sér veikist óneitanlega traust manna á atvinnulífinu, traust fjárfesta, traust lánveitenda og traust starfsmanna. Ég held því að mjög brýnt sé að koma á góðu skikki og góðum siðum. Atvinnulífið gengur fyrir heiðarleika. Það eru margir sem halda því öndverða fram en það er ekki rétt. Til þess að geta átt viðskipti við einhvern þarf maður að treysta honum og til að geta treyst honum þurfa báðir aðilar að hafa heiðarleika að leiðarljósi.

Það hefur stundum verið sagt að fallið mikla hafi verið vegna einhvers hugtaks sem menn kalla nýfrjálshyggju. Nú höfum við aðhyllst ákveðin trúarbrögð sem heita kristin trú en við höfum líka upplifað rannsóknarréttinn á Spáni, þar sem framin voru ofbeldisverk og glæpaverk í skjóli kristinnar trúar, og í krossferðunum var trúin höfð að fyrirslætti sem í sumum tilvikum leiddi til mikilla ógnana og ofbeldis. Kristin trú leið fyrir þessi ofbeldisverk sem voru framin í nafni hennar og það er svipað með nýfrjálshyggjuna sem menn kalla svo. Það sem gerðist víða um heim, víðar en á Íslandi, er að menn misnotuðu það kerfi sem byggt hafði verið upp. Það var illilega misnotað af vissum aðilum. Til að koma upp um það og hindra að slíkt geti gerst í framtíðinni er mikilvægt að sérstakur saksóknari fái þær heimildir sem hann þarf.

Ég má til með að nefna í leiðinni að ég hef lagt fram frumvarp, ég lagði það fram 3. mars, um gagnsæ hlutafélög sem er form sem er ætlað að koma í veg fyrir þá misnotkun á atvinnulífinu sem við höfum orðið vitni að. Þar er reynt að koma á kerfi sem kemur í veg fyrir þessa hringferð fjármuna, þ.e. þar sem fyrirtæki lánar til að kaupa í sjálfu sér, þar sem fyrirtæki kaupa gagnkvæmt hvort í öðru, þar sem peningarnir fara í hring, þar sem fyrirtæki kaupir jafnvel í heilli keðju af fyrirtækjum sem endar svo hjá því sjálfu. Slíkt er mjög skaðlegt og kannski miklu skaðlegra en menn átta sig á. Þannig er verið að búa til eigið fé, að búa til völd og það er verið að taka völd og áhrif frá upphaflegum fjárfestum. Ef það kemur í ljós við rannsókn sérstaks saksóknara að eitthvað slíkt sé ekki saknæmt finnst mér sjálfsagt að menn bregðist við því með því að banna það, og þá væntanlega til framtíðar, við getum ekki breytt lögum afturvirkt. Við þurfum að læra af starfi sérstaks saksóknara hvað það er sem er mjög skaðlegt og jaðrar við — við skulum segja ósiðlegt, frú forseti. Ef ekki er um að ræða lögbrot í gildandi lögum þarf að læra af því og breyta lögunum þannig að það verði saknæmt.

Ég fagna þessu frumvarpi. Þetta er eitt af þeim brýnu málum sem varða fjölskyldur í landinu. Af hverju segi ég fjölskyldur í landinu? Sumir kunna að segja að það skipti engu máli fyrir fjölskyldurnar hvort saksóknari kanni mál. En það skiptir vissulega máli vegna þess að þegar hann kannar mál og kemur á góðu siðferði og trausti í atvinnulífinu fær atvinnulífið aftur hlutafé og lánveitingar erlendis og innan lands og getur farið að fjölga störfum. Þá minnkar atvinnuleysið og hagur heimilanna batnar. Aðalmeinsemdin í dag er atvinnuleysið og þær hörmungar sem því fylgja fyrir einstaklinga og fjölskyldur.