136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

íslenskur ríkisborgararéttur.

402. mál
[16:40]
Horfa

Björn Bjarnason (S):

Herra forseti. Ég vil segja nokkur orð um þetta mál til að vekja athygli á því að hér er verið að hrinda í framkvæmd skipan sem var ákveðin við breytingar á ríkisborgaralögunum 2007. Þá var ákveðið að taka upp að þeir sem sæktu um ríkisborgararétt á Íslandi skyldu gangast undir próf í íslensku. Þegar Alþingi samþykkti þá breytingu á ríkisborgaralögunum var gefinn frestur til áramóta, eða 1. janúar 2009, til að hrinda því í framkvæmd að þau próf kæmu til sögunnar.

Virðulegi forseti. Greinilegt var á síðasta ári þegar dró að því að þetta ákvæði kæmi til framkvæmda að — menn sjá tölur um það hvað margir sóttu þá um ríkisborgararétt. Ef ég veit rétt hafa nálægt þúsund manns öðlast þennan rétt á undanförnum árum, 700–1.000 manns, og því er um nokkuð umfangsmikið verkefni að ræða þegar litið er til þess að undirbúa og framkvæma próf fyrir þá sem sækja um íslenskan ríkisborgararétt.

Þegar við unnum að því í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu að hrinda þessu í framkvæmd var okkur ljóst að nauðsynlegt væri að huga að kostnaði við það að efna til prófanna og alveg frá upphafi hefur verið gengið út frá því að þannig verði um hnúta búið að kostnaður falli á þá sem prófin þreyta. Þess vegna er verið að breyta lögunum á þennan veg til að heimild verði í lögum til að ráðherra geti falið Námsmatsstofnun eða öðrum sambærilegum aðila að annast undirbúning og framkvæmd prófa og greiðist kostnaðurinn vegna þess með gjaldi sem ráðherra ákveður.

Tvíþætt ákvörðun er sem sagt kynnt í þessu frumvarpi, annars vegar að Námsmatsstofnun eða annar sambærilegur aðili annist undirbúning og framkvæmd prófanna og hins vegar að kostnaður greiðist með gjaldi sem ráðherra ákveður. Það atriði að kostnaður greiðist með gjaldi sem ráðherra ákveður er í raun lykilatriði í frumvarpinu, að heimild fáist frá Alþingi til að hafa þá skipan mála að heimilt verði að innheimta sérstakt gjald vegna prófanna.

Ég fagna því, virðulegi forseti, að samstaða er í allsherjarnefnd þingsins um að ganga til verka á þennan hátt og að í áliti nefndarinnar er lagt til að frumvarpið verði samþykkt.

Eitt er að hafa þessa skipan, annað er, sem var ákveðið árið 2007, að setja þetta sem skilyrði. Vissulega voru raddir og umræður á þinginu þegar þetta mál um breytingu á ríkisborgararéttarlögunum, sem upphaflega voru sett árið 1952, var til umræðu um hvort eðlilegt væri að gera kröfu um að þeir sem gerðust íslenskir ríkisborgarar tækju próf í íslensku. Ég tel að reynsla undanfarinna ára, reynsla þingmanna og allra sem að þessum málum hafa komið, sé á þann veg að bæði sé sjálfsagt og eðlilegt að gera kröfu af þessu tagi því að sannreynt er — og við Íslendingar höfum öðlast nýja reynslu varðandi flutning útlendinga til lands okkar á undanförnum árum — að besta tækið til að auðvelda fólki að laga sig að íslenskum háttum er að það öðlist vald á tungumálinu. Mörgum hrýs að sjálfsögðu hugur við því að læra nýtt tungumál, sama frá hvaða landi menn koma og hvaða tungumál er um að ræða, og sumir telja að það sé kannski ekki, ef ég má orða það svo, praktískt að leggja mikið á sig til að læra íslensku. En vilji menn búa á Íslandi og verða íslenskir ríkisborgarar finnst mér sjálfsagt að þessi krafa sé gerð og að sú skylda sé lögð á þá sem vilja gerast íslenskir ríkisborgarar að taka próf og leggja nokkuð á sig til að læra tungumálið áður en ríkisborgararétturinn er veittur.

Ég tel líka að það falli að íslenskri málstefnu, sem er nýsamþykkt hér á þingi, því að vissulega voru söguleg tímamót þegar Alþingi samþykkti hér ályktun um íslenska málstefnu. Fram til þess höfðu menn talið að vitundin um gildi íslenskrar tungu og sú staðfesting okkar að viðhalda tungunni dygði án þess að það væri lögbundið eða til væri sérstök samþykkt Alþingis. Sú ákvörðun hefur nú verið tekin í góðri samstöðu hér á þingi að samþykkja sérstaka ályktun og sérstaka málstefnu og ég tel að það falli að þeirri stefnu og sé í samræmi við þá stefnu og þá ákvörðun sem Alþingi hefur þegar tekið að þetta frumvarp og þessi breyting á ríkisborgaralögunum hafi komið til framkvæmda, sem þetta frumvarp staðfestir.

Ég fagna því, eins og ég hef sagt, virðulegi forseti, að málið er komið á þetta stig og árétta mikilvægi þess að algjör samstaða var um málið í allsherjarnefnd þingsins og þess vegna ekki ágreiningur á milli manna eftir stjórnmálaflokkum um það hvernig standa ætti að málinu, sem var umdeilt á sínum tíma þegar ákveðið var að setja það sem skilyrði að menn þyrftu að standast próf í íslensku til að öðlast ríkisborgararétt.